Funda um stöðuna eftir verslunarmannahelgi

Mikið landris hefur mælst við eldstöðina Öskju.
Mikið landris hefur mælst við eldstöðina Öskju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fylgjumst vel með stöðunni og gerum okkar allra besta til að grípa til þeirra aðgerða sem þykja réttar og nauðsynlegar hverju sinni.“

Þetta segir Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna, um stöðu mála við eldstöðina Öskju.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði við mbl.is í gær að yfirvöld ættu að loka svæðinu í kringum Öskju áður en það yrði of seint og vísaði til þess að mikið landris hefur mælst við eldstöðina. „Það gæti orðið katastrófa ef það kæmi gos núna,“ sagði Þorvaldur.

Óvissustig almannavarna í gildi

Inntur eftir viðbrögðum við ummælum Þorvalds segir Sólberg:

„Staðan á þessu svæði er þannig að í kjölfar þess að mælitæki í Öskjunni sjálfri fóru að sýna landris þá var lýst yfir óvissustigi almannavarna á svæðinu í september 2021 og það er enn í gildi. Þessar jarðhræringar og landris á svæðinu hafa staðið yfir í nokkur ár og virðast hafa verið stöðug á þeim tíma og litlar aðrar merkjanlegar breytingar orðið á sama tíma.

Þannig að kjarninn er kannski að það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvað kann að verða svo að það er brýnt að fylgjast vel með stöðu og þróun mála.“

Hann bendir á að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra fari með ákvörðunarvald um lokun eða takmörkun almennings og ferðamanna í sínu umdæmi og fylgist vel með þróuninni við Öskju.

Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna.
Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Síðasti fundur haldinn fyrir byrjun sumars

„Við erum í góðu samstarfi við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra og aðra viðbragðsaðila og hagaðila. Við höfum fundað reglulega með þeim vegna Öskju og næsti fundur í þeirri fundaröð verður eftir verslunarmannahelgi.“

Síðasti samráðsfundur um stöðu mála við Öskju var haldinn fyrir sumarbyrjun, að sögn Sólbergs.

Á fundinum voru meðal annars fulltrúar almannavarnadeildar og lögreglustjórans á Norðurlandi eystra auk annarra sérfræðinga.

Skilti og aðvaranir á ferðaleiðum

„Veðurstofan sinnir áfram sínu hlutverki og fylgist vel með stöðu og þróun mála og mun vara við þeirri hættu sem kann að vera yfirvofandi og því tengt hefur Veðurstofan átt mjög gott samstarf og upplýsingaskipti við viðbragðsaðila,“ segir Sólberg.

Telur þú að fólk sem fer á svæðið sé upplýst um áhætturnar?

„Ég vona að svo sé og það er viðleitni okkar viðbragðsaðila að haga því þannig til. Almannavarnir og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafa nú þegar komið því í ferli að sett verði upp skilti og aðvaranir á ferðaleiðum og það eru skilti sem snúa þá sérstaklega að þessum jarðhræringum og þeirri hættu sem af því kann að leiða og leiðbeiningum um hvernig bregðast eigi við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka