Gæsluvarðhald framlengt vegna fíkniefna í skútu

Rannsókn málsins er enn í fullum gangi.
Rannsókn málsins er enn í fullum gangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla fíkniefnum til landsins með skútu í júní síðastliðnum var framlengt í síðustu viku um fjórar vikur eða til 29. ágúst næstkomandi.

Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Rannsóknin hefur gengið ágætlega og er bara í fullum gangi enn þá, það er mikið af gögnum sem þarf að fara yfir og þessháttar,“ segir Ævar.

Um 160 kíló

Greint var frá því í gær að 160 kíló af hassi hefðu fundist í skútunni. Gruni lögreglu að fíkniefnin hafi verið flutt frá Danmörku og áætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.

Mennirnir þrír voru handteknir þann 24. júní, tveir þeirra um borð í skút­unni fyrir utan Reykjanes og sá þriðji í landi skömmu síðar. 

Þá eru þeir á breiðu aldursbili en sá elsti er fæddur 1970 og sá yngsti árið 2002 og eru þeir ekki íslenskir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert