Skólastofum lokað vegna myglu

Mygla fannst í Valhúsaskóla.
Mygla fannst í Valhúsaskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar funduðu í gær með skólastjórnendum í Valhúsaskóla og sérfræðingum Eflu vegna rakaskemmda og myglu sem fannst nýlega í skólanum. Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir í samtali við mbl.is að skólastofur verði lokaðar.

„Ég býst við því að við þurfum að loka að minnsta kosti tveimur kennslustofum alveg og endurnýja þær. Skólastjórnendur eru að finna lausnir núna og ég er að kanna lausnir með húsnæði í bænum varðandi það hvort að við getum mögulega fært kennslu fyrir þessar tvær bekkjardeildir út úr byggingunni. Við bíðum ekkert með þetta,“ segir Þór.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Uppsafnað vandamál 

Í sum­ar rannsakaði Efla skóla­bygg­ing­ar Seltjarn­ar­ness­bæj­ar vegna gruns um raka og myglu og er ljóst að grun­ur­inn var á rök­um reist­ur. Þór segir greinilegt að rakavandinn sé margra ára vandamál.

„Þetta er ekki að gerast einn tveir og bingó. Þetta er margra ára uppsafnað vandamál. Þetta er 50 ára gamalt hús og því eðlilegt að það sé ekki allt upp á 10,“ segir hann.

Fylgja leiðbeiningum Eflu

Verið er að vinna verkplan sem verður að öllum líkindum kynnt foreldrum og starfsfólki á morgun.

„Efla er að leiðbeina okkur og við förum í einu og öllu eftir því sem okkur er leiðbeint. Við erum á fullu og erum með skýrt aðgerðarplan. Við munum upplýsa foreldra og starfsfólk á öllum stundum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert