„Það bætir ekki bölið að bjóða öðrum það“

Þyrla á flugi yfir höfuðborgarsvæðið nú í júlí.
Þyrla á flugi yfir höfuðborgarsvæðið nú í júlí. mbl.is/Jón Pétur

Guðmundur Johnsen, formaður Félags landeigenda á Reynisvatns-og Hólmsheiðum, segir landeigendur alfarið andsnúna þeim hugmyndum sem uppi eru um útsýnisflug þyrlna til og frá Hólmsheiði. Hann segir aukna flugumferð á svæðinu geta skapað mikla hættu þar sem stærsta háspennutengimannvirki landsins sé að finna í hundrað metra fjarlægð frá flugbrautinni. 

Borgarbúar kvarta undan hávaða

Mikið hefur borið á kvörtunum borgarbúa að undanförnu vegna þeirrar hávaðamengunar sem skapast hefur í kringum þyrluflug til og frá Reykjavíkurflugvelli, en í samtali við mbl.is sagði formaður Borgarráðs að til greina kæmi að skoða það að færa þyrluflugið á Hólmsheiði. 

Hugmyndin hefur fengið ágætar undirtektir á meðal flugþjónustufyrirtækja, en ekki eru allir á sama máli. 

„Þegar þyrlurnar fljúga nötrar allt“

„Okkur líst afskaplega illa á þetta vegna þess að það er nýbúið að skipuleggja Hólmsheiðina sem útivistarsvæði og flugvöllurinn sem er þar veldur miklu ónæði eins og hann er,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er formaður Félags landeiganda á Reynisvatns-og Hólmsheiðum
Guðmundur er formaður Félags landeiganda á Reynisvatns-og Hólmsheiðum mbl.is/Eyþór

Hann segir flugumferðina sem nú þegar sé á svæðinu valda bæði fólki og dýrum óþægindum. „Flugumferðin fælir burt fugla, hesta og hunda. Auk þess liggur flugleiðin yfir á Suðurland yfir okkur og þegar þyrlurnar fljúga þarna oft á dag nötrar allt.

Ég get alveg samsinnt því að Vesturbæingar séu óhressir með hávaðann frá þyrlunum og ég skil þá mjög vel vegna þess að við höfum þurft að sæta sama ofbeldi hér í nokkuð mörg ár með þessum litlu þyrlum þar sem menn hafa til dæmis verið að smala gæsum og fljúga kannski tvo metra fyrir ofan húsþökin hjá okkur.

Þannig ég skil alveg fólkið við Reykjavíkurflugvöll, en það bætir ekki bölið að bjóða öðrum það,“ segir Guðmundur. 

Gæti orðið rafmagnslaust frá Borgarnesi til Keflavíkur

Auk truflana hávaðamengunarinnar sem fylgir aukinni þyrluumferð, furðar Guðmundur sig á því að skoða eigi að hefja þyrluflug nálægt stærsta háspennutengimannvirki landsins, sem er staðsett í hundrað metra fjarlægð frá flugbrautinni. 

Guðmundur segir landeigendur alfarið andsnúna því að færa frístundaflug á …
Guðmundur segir landeigendur alfarið andsnúna því að færa frístundaflug á Hólmsheiði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það sem er verst í þessu er að stærsta háspennutengimannvirki landsins er í hundrað metra fjarlægð og þetta mannvirki er gífurlega mikilvægt fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar. Ef það fer vél niður í mannvirkið á versta stað verður rafmagnslaust frá Borgarnesi til Keflavíkur vegna þess að þetta tengimannvirki tekur við öllum stóru orkulínunum frá Suðurlandi úr öllum virkjununum sem þar eru.

Slysin gera ekki boð á undan sér og ef svo illa fer verðum við rafmagnslaus sem tekið getur langan tíma að laga og valdið ótrúlegu tjóni í borginni og nágrannasveitarfélögum,“ segir Guðmundur. 

Segir að skoða eigi svifflugvöllinn á Sandskeiði

Loks veltir Guðmundur því upp hvort til greina komi að skoða svifflugvöllinn á Sandskeiði sem mögulega staðsetningu fyrir útsýnisþyrluflug. 

„Það er svifflugvöllur á Sandskeiði sem er mun heppilegri staður fyrir utan alla byggð. Sá flugvöllur er ekki fyrir neinum, truflar engan og er vel fyrir utan borgina," segir Guðmundur. 

„Manni finnst nú eiginlega að Kópavogur og Reykjavík ættu að sameinast um það að koma þarna fyrir frístundaflugvelli. Ég get ekki séð annað en að menn geti nú bara verið góðir saman og reynt að reka almennilegan flugvöll þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert