Andlát: Sævar Jóhann Bjarnason

Sævar Jóhann Bjarnason.
Sævar Jóhann Bjarnason.

Sævar Jóhann Bjarnason, alþjóðlegur skákmeistari, er látinn 69 ára að aldri. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ laugardaginn 29. júlí.

Sævar fæddist þann 18. júlí 1954 og átti þrjár yngri systur. Foreldrar hans voru Svava Vatnsdal Jónsdóttir og Bjarni Jónatansson.

Eftirlifandi eiginkona Sævars er Hong Sun, sem fyrir átti dótturina Rui Zhang. Dóttir Rui er Elín Zhang, sem var Sævari mjög kær.

Sævar var fæddur og uppalinn í Reykjavík, en bjó um tíma í Svíþjóð þar sem hann tefldi mikið. Ævistörf Sævars snerust að mestu um skákina en hann starfaði einnig lengi í málefnum geðfatlaðra.

Sævar varð alþjóðlegur skákmeistari árið 1985 og vann hann fjölmarga mótssigra á sínum ferli. Hann varð fjórum sinnum skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur ásamt því að sigra opna sænska meistaramótið árið 1990. Þá átti Sævar flestar skráðar kappskákir íslensks skákmanns, vel yfir 1000 tefldar skákir hér á landi.

Árið 2021 var Sævari veitt heiðursmerki Skáksambands Íslands og var hann þannig heiðraður fyrir störf sín.

Sævar var kunnur fyrir að sinna yngri skákkynslóðinni í ráðleggingum og kennslu, og lagði hann sig fram um að keppa innanlands til að gefa yngri skákmönnum færi á að keppa við titilhafa.

Um langa hríð sá Sævar um skákpistla á DV þar sem hann fjallaði um skákina í skrifum.

Sævar hafði glímt verið erfið veikindi síðustu ár, sem olli því að hann tefldi minna og styrkurinn var ekki sá sami.

Útför hans fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík þriðjudaginn 8. ágúst klukkan 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert