Fá fordæmi fyrir lokuðu þinghaldi í manndrápsmáli

Fá fordæmi eru fyrir lokuðu þinghaldi í manndrápsmálum.
Fá fordæmi eru fyrir lokuðu þinghaldi í manndrápsmálum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fá fordæmi eru fyrir því að þinghald sé lokað í manndrápsmálum eins og er raunin í manndrápsmáli í Hafnarfirði, þar sem ungmenni urðu karlmanni að bana á bílastæði við Fjarðarkaup. Þetta segir Jónas Jóhannsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness.

Spurður hvort rök standi til þess að opna þinghaldið segir hann: „Þetta er ákvörðun sem má eftir atvikum endurskoða.“

Þinghald er lokað á grundvelli 10. gr. sakamálalaga, þar sem börn undir 18 ára aldri eru meðal sakborninga en meginregla er að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Heimilt er að loka þinghaldi ef sakborningur er undir 18 ára aldri.

38 ár síðan barn fékk dóm fyrir manndráp

Í manndrápsmáli sem kennt var við skemmtistaðinn Villta tryllta Villa árið 1985 hlaut 15 ára drengur fjögurra ára skilorðsbundinn dóm vegna manndráps. Jónas rekur minni til að þinghald hafi verið lokað í því máli en til refsilækkunar var litið til mikils uppnáms ákærða og ungs aldurs.

Þá var þinghald lokað í manndrápsmáli frá árinu 2000 þar sem Rúnar Bjarki Ríkharðsson var 22 ára að aldri þegar hann var dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot, manndráp og líkamsárás. Ákvörðun dómsins um lokað þinghald var kærð til Hæstaréttar sem féllst á lokað þinghald vegna eðlis málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert