Reykjavíkurborg hefur birt lýsingu á deiliskipulagi fyrir þróunarsvæði við Suðurfell. Þar stendur til að byggja nýtt hverfi íbúðarhúsa í Efra-Breiðholti. Stutt er síðan borgin birti deiliskipulagslýsingu fyrir Norður-Mjódd í Breiðholti.
Almenningur getur kynnt sér gögnin um þessi áform á skipulagsgatt.is.
Breiðholtið er einn stærsti og fjölmennasti borgarhluti Reykjavíkur og því sætir það tíðindum þegar ný íbúðahverfi eru skipulögð í þessu gróna hverfi höfuðborgarinnar. Efra-Breiðholt er það hverfi borgarinnar sem hæst liggur.
Uppbygging hófst í Fellahverfi í Breiðholti III haustið 1969 og á næstu fimm árum voru byggðar 886 íbúðir í 18 íbúðarhúsum. Þar á meðal var lengsta hús á Íslandi, 320 metrar. Nú, hálfri öld síðar, verður ráðist í stækkun hverfisins.
Skipulagslýsingin tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis. Tilgangur hennar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og fyrirhuguðu skipulagsferli.
Um er að ræða óbyggt svæði sem liggur austan við Fellahverfi og nær að mörkum Elliðaárdals. Aðkoma að svæðinu er um Suðurfell og liggja göngustígar og hjólastígar um svæðið sem tengjast göngustígakerfi Elliðaárdals.
Umrætt svæði er 4,28 hektarar. Það liggur frekar hátt í landi, á bilinu 91-97 metra yfir sjávarmáli. Landhalli er um 10-17metrar í austur í átt að Elliðaárdal. Svæðið er kjarrvaxinn mói með einstaka melum.
Þróunarreiturinn afmarkast af Suðurfelli til vesturs og er í beinu framhaldi af núverandi byggð, Keilufelli til norðurs, Elliðaárdal til austurs og Arnarnesvegi til suðurs.
Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir lágreistri íbúðarbyggð, 1-2 hæðir, með 50-75 íbúðum. Byggð skal aðlagast vel að landi og mynda sólrík og skjólgóð útisvæði fyrir íbúa. Opin svæði og stígar/hjólastígar skulu mynda góða tengingu milli eldri byggðar handan Suðurfells og hinnar nýju byggðar, og jafnframt við útivistarsvæði Elliðaárdals.
„Stefnt er að útboði á lóðarúthlutun samhliða gerð deiliskipulags og aðaluppdrátta. Það skipulagsteymi og uppbyggingaraðili sem verður fyrir valinu fær því tækifæri til að byggja upp hverfið frá fyrstu drögum og fullmóta byggðina af hugsjón með áherslu á vandaðan arkitektúr, umhverfi og samfélag að leiðarljósi,“ segir í lýsingunni.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 3. ágúst.