„Það er orðin rík þörf á því að þyrlur fái sína aðstöðu,“ segir Birgir Ómar Haraldsson framkvæmdastjóri Norðurflugs sem fagnar umræðu um nýjan stað fyrir þyrluflugvöll.
Þyrluumferð hefur færst mjög í aukana í kringum eldgos hér á landi síðastliðin þrjú ár. Engin undantekning hefur verið á því nú á meðan gýs við Litla-Hrút, auk þess sem rekja má fjölda þyrluferða til veðurblíðunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur, segir Birgir.
Í takti við aukna þyrluumferð hafi Reykjavíkurborg borist margar kvartanir frá íbúum í Reykjavík og Kópavogi, vegna ónæðis sem skapast hefur með auknu útsýnisflugi, segir Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs í samtali við mbl.is.
Því til viðbótar segir hann mjög eðlilegt að fundinn verði nýr staður fyrir þyrluflugvöll og leggur meðal annars til að þeirri aðstöðu yrði komið upp á Hólmsheiði, ef óhætt er að koma upp slíkri starfsemi þar.
Svæðið hefur þó ekki verið markað og því óljóst hvar aðstöðunni yrði komið fyrir.
Birgir segir enga töfralausn felast í því að koma aðstöðunni upp á Hólmsheiði, enda svæðið eyrnamerkt útivistarsvæði, „og svo færir þú ekki endilega vandamál hávaðamengunar frá borginni og skellir því eitthvað annað.“ Þá gerir hann jafnframt ráð fyrir að ferli slíkrar uppbyggingar taki um fimm ár.
Hann ítrekar þó að lítið sé hægt að tjá sig um málið enda umræðan komin stutt á veg og ekki búið að marka staðsetningu svæðisins. Birgir fagnar samt sem áður umræðunni og vonar að þau svæði sem verið hafa til umræðu, Hólmsheiði, Sandskeið og suðurhluti Hafnarfjarðar, verði það áfram þó að slokkni á gosinu.
Það er þó ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir við hugmynd um þyrluflugvöll á Hólmsheiði. Guðmundur Johnsen, formaður Félags landeigenda við Reynisvatns- og Hólmsheiði, segir í samtali við mbl.is landeigendur alfarið andsnúna þeim hugmyndum sem uppi eru um útsýnisflug þyrlna til og frá Hólmsheiði. Hann segir aukna flugumferð á svæðinu geta skapað mikla hættu þar sem stærsta háspennutengivirki landsins sé að finna í hundrað metra fjarlægð frá flugbrautinni.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segist þó ekki hafa miklar áhyggjur af tengivirkinu, í samtali við Morgunblaðið. Setur hann þann fyrirvara að Landsnet þekki ekki staðsetningu fyrirhugaðs þyrluflugvallar. Hann segir að mannvirki sem þessi séu nálægt flugvöllum um allan heim og því þurfi vitaskuld að vanda til verka, en líklegast megi þó finna lausnir þannig að tengivirkið verði ekki fyrir.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag