Rannsókn andláts konu á þrítugsaldri, sem átti sér stað á Selfossi í apríl, er langt komin og mun málið fara til héraðssaksóknara á næstu vikum. Hinn grunaði hefur nú verið í gæsluvarðhaldi í rúmar 13 vikur.
Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Selfossi, getur lögreglan á Selfossi ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu um stöðu rannsóknarinnar.
Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í maí sagði að rannsókn beindist að hugsanlegu manndrápi til samræmis við bráðabirgðaniðurstöðu krufningar, en konan fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 27. apríl.
Maðurinn sem var handtekinn vegna gruns um að hafa valdið dauða konunnar hefur verið í gæsluvarðhaldi í rúmar 13 vikur, en lög um meðferð sakamála kveða á um að ekki megi úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur nema að brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.
Í júní var varðhald yfir manninum framlengt til 11. ágúst, en þá mun hann hafa setið í varðhaldi í 15 vikur.