„Auðvelt að vera klár eftir á“

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kveðst ekki hafa skipt um skoðun varðandi …
Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kveðst ekki hafa skipt um skoðun varðandi aðgerðir stjórnvalda í faraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er engin spurning um að þessar bólusetningar hafa bjargað lífi tuga milljóna manna í heiminum, en það er líka ljóst að einhverjir sem voru bólusettir fóru illa út úr því,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári ræddi nýverið við stjórnendur hlaðvarpsins Skoðanabræðra og lét þau ummæli falla að ef hann stæði frammi fyrir Covid-19-faraldrinum með sömu upplýsingar og eru tiltækar í dag teldi hann mikilvægt að velta því fyrir sér hvort það ætti að bólusetja fólk undir fertugu eða fimmtugu við veirunni. Sagði Kári ýmsa vísindamenn telja að ekki hefði verið rétt að bólusetja alla og bent á fjölda tilfella þar sem bólusetningar á ungu fólki hefðu leitt til þess að það fékk bólgu í hjartavöðva, jafnvel í meira mæli en fólk sem sýktist af veirunni.

Í samtali við Morgunblaðið ítrekar Kári að hann hafi ekki á neinn hátt breytt skoðun sinni á þeim ákvörðunum sem voru teknar á sínum tíma, heldur telji að réttar ákvarðanir hafi verið teknar miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Þegar þurfi að gefa fólki lyf þurfi fyrst og fremst að meta kosti þess og galla, en þegar ákvörðunin var tekin um að bólusetja alla landsmenn hafi fólk staðið í þeirri trú að bólusetning kæmi í veg fyrir bæði veikindi og smit. Síðar hafi komið á daginn að bólusetningin varði ekki fólk fyrir smiti í sama mæli og vonað var, kom frekar í veg fyrir að það veiktist mikið. Það hefði verið ótrúleg heppni ef allar ákvarðanir hefðu reynst hárréttar að sögn Kára, sem segir auðvelt að vera klár eftir á.

Snýst um að verja samfélagið

„Það er alltaf lítill hundraðshluti sem situr uppi með aukaverkanir,“ segir Kári og minnir á að bólusetningar séu fyrst og fremst til að verja samfélagið, þá minnir hann einnig á hve ógnvænlegur faraldurinn var í upphafi. Því hafi ekki verið óeðlilegt að heimurinn brygðist við af miklum krafti til að hemja útbreiðslu og milda sóttina.

Aðspurður hvort hann hræðist að fólk taki orð hans úr samhengi svarar Kári að hann yrði ekki hissa á því. Margir hafi á sínum tíma verið andvígir eða haft efasemdir um aðgerðir í faraldrinum og það sé svo sem ekkert óeðlilegt við það og í raun merki um heilbrigt lýðræði að fólk hafi fjölbreyttar skoðanir og frelsi til að koma þeim á framfæri. Taki einhver orð hans úr samhengi vonist hann þó til þess að fá tækifæri til að leiðrétta það.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert