Eldgos í andarslitrum

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir margt benda til þess að gosið sé smám saman að deyja út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gígbarmar eldgossins við Litla-Hrút, sem fyrr í vikunni voru teknir að þrengjast eftir því sem glóandi hraunið storknaði á þeim innanverðum, eru nú að því komnir að loka fyrir sjálft gosopið.

Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, tók þessa mögnuðu mynd að ofan af gosopinu í gær og aðra fyrr í vikunni að neðan en þannig má sjá hvernig gígurinn er að breytast og gosopið að þrengjast er líður nær goslokum.

Hér gefur að líta mynd Eggerts Jóhannessonar, ljósmyndara Morgunblaðsins og …
Hér gefur að líta mynd Eggerts Jóhannessonar, ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is, síðan fyrr í vikunni. Þannig má sjá hvernig gígurinn er sífellt að breytast og gosopið að þrengjast er líður nær goslokum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færist inn í leiðslur undir hrauninu

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir margt benda til þess að gosið sé smám saman að deyja út. Þó séu vissar vísbendingar um að kvikan sé í auknum mæli að færast inn í nokkurs konar leiðslur undir storknuðu hrauninu. Kvika geti þannig ferðast langa leið, ýtt storknuðu hrauni upp á við og leitað út á hraunjaðarinn, þar sem hann er veikastur fyrir.

Tekur Þorvaldur fram að þannig geti langar hraunbreiður orðið til. Nefnir hann dæmi frá Havaí, þar sem eldgos stóð samfleytt yfir frá árinu 1983 til ársins 2018.

Getur ferðast um langa leið

Þar ferðaðist hraun um 11 kílómetra leið til sjávar frá upphaflegum gosstöðvum, en ekkert sást til kvikunnar á yfirborði jarðar alla þá leið. Sömuleiðis nefnir hann Þjórsárhraun, sem nær frá Veiðivatnasvæðinu allt til sjávar við Stokkseyri og Eyrarbakka, og hafði þá ferðast um 140 kílómetra leið. Við slíkar aðstæður kólnar kvikan sáralítið, jafnvel um aðeins 0,1 gráðu á hvern kílómetra. Í þessu sambandi bendir Þorvaldur á að hitamyndavélar sýni enn mikinn hita undir hrauninu.

Og þótt gígarnir geti virst sofnaðir þá haldi líf í þeim áfram. Þannig hafi það verið í fyrsta gosinu árið 2021, sem formlega taldist lokið 18. september það ár, en gas sást koma upp úr gígnum og einstaka glóð fram yfir áramót.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert