Færeyingar komu á Þjóðhátíð siglandi á skútu

Færeyingunum finnst skemmtilegast að fylgjast með brekkusöngnum.
Færeyingunum finnst skemmtilegast að fylgjast með brekkusöngnum. Mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Átján Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og sigldu á 139 ára gamalli skútu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Kári Jakobssen af Vogi í Suðurey er hluti af áhöfninni og tók hann með sér soninn og barnabarnið.

„Yngsti maðurinn um borð er 25 ára og sá elsti er 86 ára. Flestir um borð eru á pensjon aldri,“ segir Færeyingurinn Kári í samtali við mbl.is er hann útskýrir að flestir eru á sjötugsaldri í skútunni. Sjálfur er hann 77 ára, sonur hans 55 ára og barnabarnið 25 ára.

Kynntist konunni á vertíð í Eyjum

„Ég hef farið mikið til Eyja því ég kynntist konu minni í Eyjum. Fyrsta skiptið sem ég kom til Eyja var árið 1962 og svo kom ég á vertíð árið 1965 og var fram í október það ár. Ári seinna kom ég á vertíð og hitti konu mína og ég bjó þá í Eyjum í fimm ár áður en við fluttum til Færeyja,“ segir Kári.

Kári hefur farið með menn á skútunni, er nefnist Jóhanna, á Þjóðhátíð tvisvar áður, árið 2013 og 2019.

Átján Færeyingar sigldu á 139 ára gamalli skútu á Þjóðhátíð …
Átján Færeyingar sigldu á 139 ára gamalli skútu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Fiskisagan flýgur í Færeyjum

Fiskisagan flýgur greinilega í Færeyjum því nú eru enn fleiri að fara, og sumir þeirra aldrei komið til Vestmannaeyja áður.

„Menn sem hafa farið á þjóðhátíð áður voru að tala um hversu gaman það sé að þjóðhátíð, þannig menn ákváðu að melda sig með í för,“ segir hann og hlær.

Kári Jakobssen hefur farið með menn á skútunni á Þjóðhátíð …
Kári Jakobssen hefur farið með menn á skútunni á Þjóðhátíð tvisvar áður. Mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Frændur okkar í Færeyjum eru víst ekki ólíkir Íslendingum því hann segir að Færeyingunum finnist skemmtilegast að fylgjast með brekkusöngnum og að heilsa upp á fólk í hvítu tjöldunum, en hann segir heimamenn ávallt taka vel á móti þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert