Íslenskir skátar bera sig vel við bágar aðstæður

Uppbygging er hafin á svæðinu og bera íslensku skátarnir sig …
Uppbygging er hafin á svæðinu og bera íslensku skátarnir sig vel. Samsett mynd

140 íslenskir skátar á aldrinum 14 til 18 ára taka þátt í alheimsmóti skáta í Suður-Kóreu. Bágar aðstæður eru á svæðinu og hafa aðföng eins og vatn og matur verið lengi að berast. Uppbygging er hafin á svæðinu og bera íslensku skátarnir sig vel. 

Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta segir að íslensku skátarnir sem taki þátt í vinnubúðum á mótinu hafi mætt á svæðið þegar uppbygging þess var að hefjast.

Uppbyggingunni hafði seinkaði vegna rigningar og bleytu í vikunni áður og seinkaði íslenski fararhópurinn komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.  

Mannafli sendur á staðinn

Vegna bleytunnar og hitabylgju einkenndust fyrstu dagar mótsins af upplýsingaskorti og voru aðföng eins og vatn og matur lengi að berast. Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá suður-kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum.

Hitabylgja herjar á svæðið um þessar mundir og hafa því verið gerðar ráðstafanir til að verja ungmennin frá versta hitanum yfir miðjan daginn, aðgengi að vatni og kælitjöldum stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki á svæðinu fjölgað.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er, en samkvæmt tilkynningunni er staðan metin frá degi til dags. Íslenski hópurinn ber sig vel og hefur verið duglegur að sækja þá dagskrá sem stendur til boða og kynnast skátum úr öllum heimshornum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert