Manndrápsmál í Hafnarfirði komið til ákærusviðs

Rannsókn málsins miðar vel.
Rannsókn málsins miðar vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn máls er varðar manndráp í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði, miðar vel og er komin til ákærusviðs lögreglu. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Áframhaldandi varðhald sennilegt

Gæsluvarðhald yfir hinum grunaða rennur út 15. ágúst. Spurður hvort krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds segir Ævar: 

„Það má gera ráð fyrir að krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna, miðað við hvernig málið er vaxið.“

Hinn grunaði er pólskur maður um fertugt. Hann er grunaður um að hafa ráðið samlanda sínum bana með hnífi í svefnherbergi látna, en þeir voru meðleigjendur. Hinn látni lætur eftir sig eiginkonu og stjúpbarn í Póllandi auk ættingja á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert