Opið að gosstöðvunum í dag

Margir leggja leið sína að gosstöðvunum enda mikið sjónarspil. Almenningi …
Margir leggja leið sína að gosstöðvunum enda mikið sjónarspil. Almenningi ber þó að hlýða lögreglu og halda sig fjarri bannsvæðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lokun gönguleiða gekk vel í gær en alla daga þurfa nokkrir ferðamenn á aðstoð viðbragðsaðila að halda,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum um gang mála á gossvæðinu við Litla-Hrút en lögregla fer þar yfir þær reglur sem gilda um för almennings um svæðið.

Lætur lögregla göngukort fylgja tilkynningu sinni og auðkennir þar hættusvæði sem samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra eru bannsvæði. „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur,“ segir í tilkynningunni en bendir lögregla þó á að bannið taki ekki til viðbragðsaðila og vísindamanna sem þurfi í vísindalegum tilgangi aðgang að svæðinu.

Flestir sýni skilning

Í dag er opið inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi en verður gönguleiðum lokað klukkan 18. Segir lögregla að flestir sýni því skilning að aðgangur að svæðinu sé takmörkunum háður en að mati lögreglustjóra sé ekki forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn. Verði gönguleiðum frá Suðurstrandarvegi því lokað klukkan 18 dag hvern, þó fyrr eða seinna eftir atvikum.

Göngukort lögreglu af gossvæðinu.
Göngukort lögreglu af gossvæðinu. Kort/Lögreglan

Hnykkir lögregla á því í skrifum sínum að fólk sé á eigin ábyrgð inni á bannsvæði og bendir jafnframt á að Meradalaleið svokölluð liggi að gosstöðvunum. Hún sé 18 kílómetrar fram og til baka í samanlögðu og henti því alls ekki öllu göngufólki. Meradalaleið liggur í norðaustur frá bílastæði í Stóra-Leirdal.

Einhverjir létu sig þó greinilega hafa gönguna en lögregla segir talinn fjölda á Meradalaleið í gær hafa verið 1.326 manns en 1.188 á eldri gönguleiðum. Í dag verði lögregla, landverðir og sjúkraflutningamenn á svæðinu en þó ekki að staðaldri segir lögregla og brýnir fyrir ferðafólki á svæðinu að sýna ábyrga hegðun.

Lífshættulegar gastegundir

„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum,“ segir í tilkynningunni.

Er gosáhugafólki á svæðinu ráðlagt að nota rykgrímur til að forðast mengun frá gróðureldum. Leggur lögregla áherslu á að fólk fari ekki með börn á gossvæðið auk þess sem ekki sé ráðlegt að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma og þungaðar konur leggi leið sína þangað.

Þá skuli fólk vera vel nestað og búið leggi það í gosstöðvagöngu, með næga hleðslu á farsímum og að síðustu sé ráðlegt að fylgjast með vindátt og fréttaflutningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert