Upplifði að ég væri í röngum líkama

​Í myndveri Árvakurs hitti blaðamaður Örnu Magneu Danks og þar ræddum við líf hennar sem trans konu. Arna þurfti að yfirstíga margar hindranir áður en hún kom út, en sem barn lenti hún í miklu ofbeldi sem átti eftir að setja mark sitt á hana. Eftir að hún ákvað að vera sú sem hún er hefur lífið batnað til muna. Nú berst hún fyrir réttindum hinsegin, kynsegin og trans fólks sem hún segir enn finna fyrir fordómum og verða fyrir aðkasti.

Geimvera í líkama bróður

„Ég kom út fyrst tæplega fjögurra ára gömul þegar ég hljóp til mömmu og sagði: „Mamma, ég er ekki í speglinum,““ segir hún.

„Þá sá ég mig ekki. Ég hef alla ævi verið að berjast við að það fór ekki saman, mín sjálfsmeðvitund og það sem ég sá í speglinum og það sem annað fólk sá. Þó allt trans fólk upplifi það ekki þannig, þá upplifði ég það mjög sterkt að ég væri í röngum líkama. Ég sagði við yngri systur mína að ég væri ekki bróðir hennar heldur geimvera sem fór í líkama bróður hennar. Ég var í raun alltaf að reyna að koma út án þess að vita hvað ég væri,“ segir Arna og segist hafa farið að hugsa á unglingsárunum um hvað hún væri og hvers vegna sér liði svona.

„Ég hugsaði, af hverju get ég ekki lært að vera „venjuleg manneskja?“,“ segir Arna og segist hafa verið trans barn, en á þessum árum hafi ekki verið til orð yfir það.

„Það var mikil sorg að reyna að lifa eftir væntingum samfélagsins. Ég var neydd til að lifa í hlutverki sem passaði mér ekki.“​

Svara hatri með ást

Hvernig berst þú fyrir ykkar réttindum?

„Ég reyni að mæta þessu með rökum, skynsemi, mildi og hlýju. Það eru þó takmörk fyrir öllu þegar maður fær skilaboð um að það ætti að taka börnin af mér og að ég ætti að drepa mig,“ segir hún.

„Þá er oft erfitt að sýna mildi og hlýju en ég reyni að svara hatrinu með ást. En það er ekki hægt að fá fólk til að hlusta sem vill ekki hlusta. Þú rökræðir ekki við rætið innræti.“

Lengra viðtal má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og í heild er viðtalið opið áskrifendum í Dagmálsþætti á mbl.is.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert