Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að fá svokallaða Húnavallaleið á samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038, en þessi veglína er ekki á áætlun núna.
„Það er varla til skynsamlegri framkvæmd í vegamálum en Húnavallaleiðin,“ segir Njáll í samtali við mbl.is. Húnavallaleiðin myndi stytta ferðina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 14 kílómetra með nýjum 17 kílómetra löngum vegi.
Vegstæðið sem Vegagerðin lagði fram á sínum tíma undir heitinu Húnavallaleið liggur frá Brekkukoti yfir í Langadal þar sem vegurinn myndi tengjast núverandi þjóðvegi við Hvamm í Langadal.
Njáll Trausti segir þessa vegaframkvæmd vera eina þá arðsömustu sem hægt sé að ráðast í hér á landi.
„Þjóðhagslegi ábatinn af þessari framkvæmd er mikill. Sparnaður fyrir vegfarendur, fækkar slysum og óhöppum og auðvitað tímasparnaðurinn. Hér er rétt að hafa í huga að núverandi vegir myndu áfram liggja til og frá Blönduósi þannig að ef vegfarendur eiga þangað erindi þá hefur ný leið engin áhrif á það,“ segir Njáll og bætir við:
„Ef litið er til heildarhagsmuna samfélagsins þá er þetta einfaldlega mjög góð framkvæmd.“
Að sögn Njáls þá kemur fram í greinargerð Vegagerðarinnar, sem umferðarsérfræðingar hennar unnu og sendu umhverfisráðherra árið 2011, að óhöppum og slysum myndi fækka um 11 á ári með Húnavallaleiðinni. Enginn kostnaður liggur fyrir en segir hann að framkvæmdin myndi eflaust borga sig upp á örfáum árum.
„Fyrir rúmlega 10 árum var áætlað að kostnaðurinn væri 2,5 til 3 milljarðar og talað um að framkvæmdin myndi borga sig upp fyrir samfélagið á 4 til 5 árum. Ég efast um að það sé mikil breyting á því hversu lengi framkvæmdin væri að borga sig, mikilvægi verkefnisins vex með hverju ári með aukinni umferð,“ segir Njáll og bætir við:
„Í samanburði við Sundabraut þá er talið að arðsemin af henni sé 10%, sem þykir gott. En arðsemin af þessari framkvæmd yrði enn meiri eða öðru hvorum megin við 20%.“
Njáll segir að vegstytting sé liður í því að styrkja atvinnulífið.
„Íbúar og atvinnulífið við Eyjafjörð og hér austur um hefur lengi kallað eftir vegstyttingum og bættu umferðaröryggi á leiðinni til Reykjavíkur, Húnavallaleið, ásamt fleiri góðum verkefnum eins og Sundabraut, gegna mikilvægu hlutverki ef á að nást árangur á þessu sviði," segir hann og bætir við:
„Það þekkja allir að til að styrkja atvinnulífið þá þarf alltaf að leita leiða til að ná niður flutningskostnaði og styrkja samkeppnishæfni þess,“ segir Njáll að lokum.