Vinna að því að koma íslenskum skátum í skjól

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi. mbl.is/Sigurður Bogi

Íslenskir fulltrúar á alheimsmóti skáta upplifa nú á eigin skinni svæsna hitabylgju í Suður-Kóreu. Verið er að skoða að koma íslensku skátunum á hótel eða í húsnæði heimavistarskóla nærri mótssvæðinu. Staðan á hópnum er heilt yfir góð en sex úr hópnum hafa leitað á mótssjúkrahús og verið yfir nótt og aðrir til heilsugæslu, þó ekki vegna alvarlegs heilsubrests. Um 43 þúsund skátar sækja mótið. 

Þetta staðfestir Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta, í samtali við mbl.is.

Að utan berast fréttir af örmagna skátum víða frá og heilu hópunum sem hafa leitað á önnur svæði til þess að gista innandyra. Meðal þeirra er hópur Bretlands en Harpa segir að verið sé að skoða alla möguleika til þess að koma hópnum inn og virkja tengslanet norðurlandaþjóðanna á svæðinu.

Koma hópnum í hús og meta stöðuna

„Bretarnir ætla að fara af svæðinu í tvo til þrjá daga til að byrja með, þeir ætla ekki að senda fólkið sitt heim en koma því bara í hús og við erum í mjög nánu samstarfi við norðurlandaþjóðirnar af því þau eru náttúrulega með svo miklu fleiri aðila þarna úti þannig við fylgjum með í þeirra viðbragði. Við erum að virkja okkar tengslanet núna og skoða hvað þau ætla að gera, þannig að já, við erum að skoða möguleikana sem við höfum á að koma þeim allaveganna í hús á meðan við erum svona að meta stöðuna,“ segir Harpa. Staðan sé þó góð á íslenska hópnum.

Alheimsmót skáta fer nú fram í Suður-Kóreu. Hitastigið þar hefur …
Alheimsmót skáta fer nú fram í Suður-Kóreu. Hitastigið þar hefur þó sett strik í reikninginn. AFP

 „Staðan er góð á okkar fólki, það er að segja, krakkarnir hafa haft það fínt. Það var bætt rosa mikið í aðstöðuna á mótinu síðasta sólarhringinn þannig að þau eru vel nærð, þau eru að fá vatn og þau fá möguleika á að komast í loftkælingu þegar þeim finnst hitinn vera of mikill. Almennt þá hafa þau það fínt en þau hafa náttúrulega fundið vel fyrir hitanum.“

Þrjár sveitir skáta eru á svæðinu ásamt 25 til 30 fullorðnum en í hverri sveit eru 36 krakkar. Harpa bætir því við að alþjóðafulltrúi bandalagsins sé rétt ókominn á svæðið.

„Það er enginn í hættu af okkar fólki eins og er“

Spurð hvort borið hafi á góma að koma öllum heim segir hún fyrsta skref að koma öllum í hús.

„Svo þyrftum við að skoða hvað þau vilja gera því að þau eru náttúrulega búin að undirbúa sig að vera í ferð á þessum tíma og við eigum flug fyrir þau á ákveðnum tímum þannig það er í raun bara það næsta sem við skoðum. Hvað við gerum, hvort við bíðum og sjáum hitabylgjuna ganga niður og þau fara aftur til baka eða hvort þau fara heim. Þannig að við í rauninni byrjum bara á að koma öllum í hús og svo sjáum við hvað við gerum eftir það,“ segir Harpa. Enginn sé þó í hættu.

„Þetta er bara eitthvað sem við erum akkúrat í þessum töluðu orðum að vinna í að skoða. En það er enginn í hættu af okkar fólki eins og er, þau eru eins og ég segi í góðum höndum með sínu fólki en úr því að við sjáum að Bretarnir ætla að draga sig í hlé þá munum við skoða það líka.“

Skoðað sé hvort hægt sé að koma hópnum á hótel eða í húsnæði heimavistarskóla nærri svæðinu.

Einhverjir leituðu á sjúkrahús og heilsugæslur til að kæla sig

En staðan heilt yfir góð á hópnum eða hvað?

„Já, staðan er heilt yfir góð en fólk er þreytt og það er þreytt á hitanum.“

Það er væntanlega erfitt að undirbúa sig undir svona mikinn hita?

„Já, þau fengu alveg góðan undirbúning og þau hafa fengið alls konar. Þau fengu kæliermar og það var von á kælihúfum og kæligrímum og alls konar frá mótinu í dag og það er búið að setja upp stórar rútur sem eru kældar þannig þau geti hvílt sig á hitanum. Og þegar fer að dimma þá er þetta allt í lagi hiti en versti tíminn er þarna á milli 11 og 14 á daginn og þá hafa þau bara fengið að vera í hvíld, þau stoppuðu alla dagskrá í dag þannig þau væru ekki að reyna á sig eða svoleiðis. Þau eru ekki einhvers staðar úti í einhverjum hita,“ segir Harpa.

Hún segir sex úr hópnum hafa fengið að vera inni á mótssjúkrahúsi yfir nótt og fengið vökva og farið svo til baka. Nokkrir til viðbótar hafi farið á heilsugæslustöðvar og fengið að kæla sig.

„En ekkert af því hefur verið eitthvað svona alvarlegt, þau hafa einhver fengið vökva og verið í skjóli yfir nótt en svo bara farið aftur til baka,“ segir Harpa.

Þá bætir hún við að utanríkisþjónustan sé meðvituð um stöðuna og tilbúin ef á henni þurfi að halda og sendiherrann í Tókýó sé einnig meðvitaður um gang mála. Mótinu lýkur formlega 12. ágúst og kemur hópurinn heim í nokkrum hollum 14., 15. og 16. ágúst, ákveði hópurinn að klára mótið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert