Þóra Birna Ingvarsdóttir
Talsvert hefur dregið úr gosóróanum við Litla-Hrút síðastliðinn sólarhring.
Sé farið til baka í tíma á vefmyndavélum mbl.is má sjá að í nótt var enn glóð í gígnum, eldur og hraunrennsli á tveimur stöðum. Þessi ummerki sjást síður í dagsbirtu og því gefa óróamælingar betri mynd af stöðu eldgossins á daginn.
Óróamælingar Veðurstofu Íslands gefa til kynna að það sé að draga verulega úr virkninni. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings, er óróinn ekki enn kominn niður í bakgrunnsgildi. „Það er dálítið í það. Það rýkur enn úr gígnum.“
Ómögulegt er að segja til um það hvenær goslok verða, en Magnús segir mælingarnar þó benda til þess að þau kunni að verða fyrr en seinna. „Það dregur það hratt úr óróanum að þetta gæti alveg klárast á næsta sólarhringnum.“
Engin skjálftavirkni eða aflögun hefur gert vart við sig sem gefur tilefni til að ætla að nýju gosi skjóti upp kollinum rakleitt í framhaldinu. Þó segir Magnús að tíminn einn geti leitt í ljós hvort eldgosið við Litla-Hrút verði lokahnykkurinn í þessari atburðarás.