Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir kveðst sammála Kára Stefánssyni um að réttar ákvarðanir varðandi bólusetningar og sóttvarnarráðstafanir hafi verið teknar á sínum tíma. Hún geti þó ekki sagt að hún þekki til rannsókna sem sýni fram á að ungt bólusett fólk þjáist af aukaverkunum eins og hjartavöðvabólgu í meira mæli en fólk sem sýktist af veirunni.
Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær sagði Kári það óumdeilanlegt að bólusetningar hefðu bjargað lífi tuga milljóna manna í heiminum, en að einnig væri ljóst að einhverjir hefðu farið verr út úr bólusetningum.
Velti Kári upp þeim vangaveltum að ef hann stæði frammi fyrir Covid-19-faraldrinum, með sömu upplýsingar og eru tiltækar í dag, teldi hann mikilvægt að velta því fyrir sér hvort það ætti yfirhöfuð að bólusetja yngra fólk.
Í samtali við Morgunblaðið segir Guðrún það heilt yfir óalgengt að fólk hljóti fylgikvilla eins og hjartavöðvabólgu og hjartaþelsbólgu. Slíkar aukaverkanir séu þó vissulega algengari hjá yngri karlmönnum, en þær rannsóknir sem hún þekki til bendi til þess að fólk sem hafi sýkst af Covid-19 sé líklegra til að fá bólgu í hjartavöðva eða hjartaþelsbólgu en fólk sem fékk bólusetningu.
Ýmsar langtímaafleiðingar séu til að mynda ekki að greinast hjá bólusettum eins og hjá þeim sem hafa sýkst af veirunni.
Spurð hvort eitthvað sé til í því að betur hefði mátt sleppa að bólusetja fólk undir fertugu eða fimmtugu, kveðst hún ekki geta fullyrt það.
Lögð sé áhersla á það í dag að eldra fólk og fólk í áhættuhópum fái örvunarbólusetningu, en ástandið hafi meðal annars batnað vegna þess að ónæmi hafi breiðst út með bólusetningum og fyrri sýkingum. Það sé erfitt að segja hvernig hefði farið ef ekki hefðu verið svo útbreiddar bólusetningar.
„Þegar maður lítur til baka í baksýnisspegilinn hefur maður náttúrulega allt aðra sýn, því maður hefur allt aðrar upplýsingar.“