Þegar Fanney K. Hermannsdóttir og Guðmundur Fertram Sigurjónsson hittust í fyrsta sinn í Skólabæ við Suðurgötu fyrir sléttum þrjátíu árum hafa þau ekki rennt grun í að síðar myndu þau selja fyrirtæki til alþjóðlegs lækningarisa fyrir u.þ.b. 180 milljarða króna. Vegferð þeirra teygir sig yfir búsetu í þremur heimsálfum, þeim hefur orðið fimm barna auðið og ólíkir eiginleikar þeirra reyndust hæfileg blanda til að koma Kerecis á laggirnar.
Í viðtali í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins upplýsa þau að árið 2012 hafi stappað nærri því að uppbygging fyrirtækisins yrði að engu. Fertram var hins vegar sannfærður um að þorskroðið að vestan myndi breyta aðferðum við sáragræðslu. „Það hvarflaði að mér, en ég íhugaði það ekki,“ svarar hann þegar blaðamaður spyr hvort til greina hafi komið að leggja árar í bát. Í stað þess að gefa fyrirtækið upp á bátinn færðu þau skrifstofur þess heim í stofu, skáru starfsemina við trog og juku við sig í annarri vinnu til að standa straum af launakostnaði annarra starfsmanna. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík, fyrirtækið var nýverið selt fyrir 1,2 milljarða dollara, jafnvirði um 180 milljarða króna.
Þau hjónin ætla ekki að kasta mæðinni eftir söluna. Fertram hyggst sanna sem forstjóri Kerecis að minnsta kosti næstu tvö árin að kaup Coloplast á Kerecis séu bestu viðskipti sem fyrrnefnda fyrirtækið hefur ráðist í. Þá brenna þau fyrir atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Vestfjörðum. Þar spila samgöngur stóra rullu.
„Við erum með margar hugmyndir. Það sem þó breytist núna er að við þurfum ekki að leita til fjárfesta til þess að hrinda þeim í framkvæmd,“ segir Guðmundur Fertram.