Rændu hjón á sjötugsaldri og konu á sextugsaldri

Mennirnir voru handteknir skömmu eftir seinna ránið, við Mjódd.
Mennirnir voru handteknir skömmu eftir seinna ránið, við Mjódd. mbl.is/Golli

Tveir voru handteknir í Mjódd í dag eftir að hafa ógnað þremur með hnífi og rænt á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar við Grundarland og hins vegar við Hamraborg.

Mennirnir eru 18 og 21 árs og ferðuðust um á vespu. Fyrra atvikið var tilkynnt til lögreglu klukkan 11.42 og það seinna klukkan 11.57.

Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Vísir greindi fyrst frá.

Ógna hjónum með eldhúshníf

Við Grundarland veittust þeir að hjónum á sjötugsaldri á göngu með hundinn sinn. Skúli segir þá hafa ekið á ógnarhraða á göngustígnum og þá hafi einhver orðaskipti átt sér stað.

„Í framhaldi af því er það að annar drengurinn stekkur af vespunni og ógnar manninum með stórum hníf og fór þarna í vasana hjá þessum manni [...] og stal af honum snjallsíma og tók síðan úrið af honum. Hinn drengurinn veittist síðan að konunni en hún var bara með tóma vasa þannig að hann hafði engan áhuga á því. Og svo fóru þeir bara,“ segir Skúli.

Rændu konu við hraðbanka 

Hitt ránið átti sér stað korteri seinna við Hamraborg.

„Þá eru þessir kappar mættir þangað og ræna þarna konu á sextugsaldri [...] hún er þarna að taka reiðufé út úr hraðbanka.“ Þeir hafi haft af henni 35 þúsund krónur og veist að henni með sömu ógnandi tilburðum og fyrr var lýst.

„Þetta er náttúrulega bara hræðileg upplifun fyrir þetta fólk, hvernig er veist að þeim,“ segir Skúli en mennirnir voru handteknir í Mjóddinni nokkru síðar. Þá virðast þeir ekki hafa verið með peninginn á sér lengur. Þá hafi vopnið sem um ræðir verið eldhúshnífur. 

„Þessi mál eru náttúrulega bæði í rannsókn og lögregla aflar gagna í þessum málum og þeir eru í okkar haldi og bíða þess náttúrulega síðan að vera yfirheyrðir þegar við erum tilbúin til þess,“ segir Skúli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka