Allir í góðum gír þrátt fyrir vætu gærkvöldsins

Góð stemning var í dalnum í gærkvöldi.
Góð stemning var í dalnum í gærkvöldi. mbl.is/Magnús Geir

Gæsla, lögregla, þjóðhátíðarnefnd og gestir eru ánægð með gang mála á Þjóðhátíð hingað til. Gestirnir eru glaðir þrátt fyrir rigningu og allir í góðum gír.

Þetta segir Jónas Guðbjörn Jónsson, fomaður þjóðhátíðarnefndar, í samtali við mbl.is.

Hann segir alla gríðarlega spennta fyrir góðu kvöldi, kvöldvakan sé í streymi og frábær dagskrá hefjist á söngkonunni Bríeti og fleirum áður en brekkusöngurinn taki við.

Gríðarlega spennt

„Við erum bara gríðarlega spennt. Rosalega góð veðurspá og það er byrjaður að myndast svona spenningur,“ segir Jónas.

Hann segir mætinguna góða og jafnvel örlítið betri en í fyrra. Hvað varðar bleytu gærkvöldsins í Eyjum segir hann rigninguna ekki hafa stöðvað gestina.

„Það var enginn vindur í þessu þannig þetta fór bara vel. FM95Blö voru svo hrikalega flottir að ég held að þeir hafi tekið svona mesta athyglina frá því og rigningunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert