Leit lögreglu bundin við ákveðna hópa

Lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir engin met slegin í vopnaburði og …
Lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir engin met slegin í vopnaburði og fíkniefnamálum, en að lögregla sé á varðbergi. Samsett mynd

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmanneyjum, segir að brýnt hafi verið fyrir lögreglu að leita á einstaklingum sem grunur leiki á að beri vopn eða fíkniefni. Hann telur þó fólk almennt prúðara nú en síðustu ár.

Aðspurður segir hann ekki merkja það að vopnaburður fólks hafi aukist, heldur sé lögreglan á staðnum einfaldlega í átaki gegn slíku vegna fjölgunar stunguárása á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir virðist þó meðvitaðir um átakið og skilji eggvopnin eftir heima.

Engin met slegin í fíkniefnamálum

„Þetta er bundið við ákveðna hópa og ákveðnar persónur og við vissum að eitthvað af þeim væri að koma hingað og vildum bara vera viðbúnir,“ segir Karl Gauti.

Spurður hvaða einstaklingar það séu svarar Karl Gauti: „Ákveðnir einstaklingar sem eru þekktir fyrir að bera á sér hnífa.“ 

Hann segir eitthvað hafa verið um fíkniefnamál á hátíðinni og að um 15 slík hafi komið upp í gær og um 40 í heildina. Karl Gauti segir það ekkert nýtt á úthátíðinni að fólk reyni að neyta fíkniefna og selja þau.

„Ég held nú ekki að það séu slegin einhver met í því í ár.“

Tekin með 40 grömm af kókaíni

„Þetta eru að mestu neysluskammtar, en líka eitthvað um sölu,“ segir Karl Gauti en einn var tekinn með 40 grömm af kókaíni ætlað til sölu.

Hann segir óeinkennisklædda lögreglu ganga um svæðið að vana og hafi augun úti fyrir fíkniefnaneyslu og sölu og leiti á fólki telji hún þess þörf.

Spurður hvernig lögregla meti á hverjum skuli leita segir Karl Gauti það í mörgum tilfellum vera góðkunningja lögreglunnar. Lögregluþjónar úr öðrum landshlutum séu á svæðinu til að aðstoða og þekki sitt fólk.

Langmest yndislegt fólk

„Langmest er þetta samt yndislegt fólk sem hingað er komið til að skemmta sér,“ segir Karl Gauti sem var í Herjólfsdal þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans.

„Ég held svei mér þá að fólkið sé prúðara en þegar ég vann hér fyrir tíu árum.“

Karl Gauti telur mögulegt að met verði slegið með mannfjöldanum sem saman komi í Herjólfsdal í Vestmanneyjum í kvöld og segir dásemdarveður leika við hátíðargesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert