Kettir hafa lengi sett svip sinn á daglegt líf borgarbúa. Hvort sem litið er í Skeifuna, Mjóddina eða miðbæinn er víða að finna litla ferfætlinga sem standa vörð um sín svæði. Blaðamaður mbl.is fór í leiðangur inn á heimasvæði nokkurra þeirra og kynnti sér sögu bæjarkattanna betur.
Fræðast má um bæjarkettina í myndbandinu hér að ofan.
Fyrst á dagskrá var heimsókn í miðbæ Reykjavíkur en þar eru Negull, Baktus, Ófelía og fleiri til húsa. Hver og einn köttur á og stendur vörð um sitt svæði. Negull gætir Laugavegar, Ófelía Skólavörðustígs og Baktus Austurstrætis og Ingólfstorgs en þá sérstaklega Gyllta kattarins, verslunarinnar sem hann hefur búið í í ellefu ár. Baktus er þekktur af ferðamönnum víða frá og er með dyggan fylgjendahóp á Instagram.
Negull heldur til í versluninni Hjarta Reykjavíkur og Ófelía hefur flakkað á milli búða á síðustu árum. Hún virðist þó hafa komið sér vel fyrir í Icemart.
Næst á listanum var hinn víðfrægi Diego, sem skiptir verðmæta tíma sínum á milli Hagkaupa og A4 í Skeifunni. Aðdáendur Diego hafa komið upp Facebook hóp en þar inni eru tæplega tólf þúsund manns.
Ekki tókst að hitta á sundlaugarvörð Laugardalslaugar, hana Loppu, eða starfsmann Nettó í Mjódd, hana Emblu á meðan á tökum stóð en þær voru eflaust uppteknar við mikilvægari verk.
Vert er að minnast á Púka sem blaðamanni skilst að sé sestur í helgan stein en hann var tíður gestur í verslunum miðbæjarins. Einnig má nefna Rósalind sem að vappaði rólega um svæði Háskóla Íslands við Sæmundargötu lengi vel og gladdi nemendur jafnt og starfsfólk í amstri dagsins. Fráfall Rósulindar reyndist mörgum erfitt innan háskólasamfélagsins og var hennar minnst með hlýhug í kjölfar þess.