Ók rútu á nöglum með farþega án nokkurs leyfis

Maðurinn var stöðvaður um klukkan níu í gærkvöldi.
Maðurinn var stöðvaður um klukkan níu í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kínverskur ríkisborgari sem ók um á hópferðabifreið var stöðvaður af lögreglu í Hafnarfirði um klukkan níu í gærkvöldi.

Kom í ljós að ökumaður­inn ók án gildra öku­rétt­inda, var ekki með at­vinnu­rétt­indi hér á landi, notaði ekki öku­rit­askífu eða öku­rit­akort, og loks var bifreiðin enn á nagla­dekkj­um.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir sekt vera líklega útkomu í málum sem þessum en hann geti þó ekki sagt til um hvernig málið fari.

Ekkert hópferðaleyfi, ekkert atvinnuleyfi

„Hann var þarna að aka farþega og til þess þarftu hópferðaleyfi sem var ekki til staðar, það er ákveðin reglugerð þar á bak við,“ segir Skúli í samtali við mbl.is. 

„Svo er þarna kínverskur ríkisborgari með dvalarleyfi í Svíþjóð, sem veitir honum ekkert heimild til starfa hér á landi nema með leyfi og ekkert slíkt leyfi til staðar, þannig það er brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga,“ bætir hann við.

„Þetta allt saman tínt saman fer bara á ákærusvið embættisins sem tekur ákvörðun um framhaldið. Mér svona sýnist að þetta séu mikið ákvæði um lög og reglu sem eru með sektarákvæði, þannig að mér þætti ekkert ólíklegt þó þetta afgreiðist með sektum, ég veit svo sem ekki hver endanleg niðurstaða verður í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert