„Þetta er búið í bili“

Staðan kl. 13:21 þann 6. ágúst 2023.
Staðan kl. 13:21 þann 6. ágúst 2023. Skjáskot vefmyndavél mbl.is

Eld­gos­inu við Litla-Hrút er lokið, rétt­ara sagt lauk því í gær. Taki virkn­in sig upp að nýju eft­ir þenn­an tíma­punkt væri um að ræða nýtt eld­gos. 

Þetta seg­ir Þor­vald­ur Þórðar­son eld­fjalla­fræðing­ur í sam­tali við mbl.is. 

„Þetta er búið í bili, ég held það sé al­veg óhætt að lýsa því yfir.“ Hann er hluti af því teymi sem held­ur úti Face­book síðu Rann­sókn­ar­stofu í eld­fjalla­fræði og nátt­úru­vá, Há­skóla Íslands, en þau birtu færslu fyr­ir skemmstu þar sem þau gáfu í skyn að gos­lok væru í höfn.

Var þar vitnað í það að Þor­vald­ur hafði af léttúð spáð því fyr­ir, í fjöl­miðlum, að gos­lok yrðu laug­ar­dag­inn 5. ág­úst klukk­an 07:37. Nú hef­ur komið á dag­inn að hann var nokkuð sann­spár.

Lík­lega 2 til 3 eld­gos í viðbót

Þor­vald­ur tel­ur ósenni­legt að gosið við Litla Hrút hafi verið loka­hnykk­ur­inn í at­b­urðarás­inni á Reykja­nesskag­an­um sem hófst fyr­ir nokkr­um árum.

„Mér þykir lík­legra að við fáum annað gos á svipuðum slóðum í kjöl­farið, jafn­vel tvö eða þrjú í viðbót.“

Hann bend­ir á að þau eld­gos sem orðið hafa á Reykja­nesskag­an­um und­an­far­in ár, séu svo­kallaðir eld­ar.

Það er ein­kenn­andi fyr­ir elda að þeir eiga sér stað á línu­legri reim, þannig fer af stað gos sem hleyp­ir af stað næsta gosi og svo koll af kolli. Oft geta átt sér stað upp und­ir 8 eld­gos á svipuðum slóðum. Dæmi um elda sem Íslend­ing­ar hafa upp­lifað eru Kröflu­eld­arn­ir, Krýsu­víkureld­ar, Reykja­neseld­ar og jafn­vel Surts­eyj­ar­eld­ar. 

Eld­gos af þessu tagi eru frá­brugðin eld­gos­um sem verða í eld­fjöll­um á borð við Kötlu og Heklu, en það eru oft­ast ein­skipt­is­gos sem eru þó afl­meiri en eld­arn­ir. 

Meg­um bú­ast við árs­hvíld hið minnsta

Spurður hve langt sé í næsta gos, svara Þor­vald­ur á þann veg að hann telji að næsta gos verði ekki fyrr en eft­ir ár í fyrsta lagi, eða þá lengri tíma. 

„Það fer eft­ir því hve mikið inn­flæðið er. Það hef­ur orðið land­sig þarna eft­ir að gosið hófst. Ef við sjá­um að land fari að rísa aft­ur á þessu svæði þá má bú­ast við því að kvik­an sé far­in að streyma inn að nýju. Það þarf nátt­úru­lega að safna í sarp­inn til að geta gosið á ný og það get­ur tekið tíma.“

Öll gos­virkni féll end­an­lega niður

Eld­fjalla- og nátt­úru­vár­hóp­ur Suður­lands hef­ur einnig lýst yfir gos­lok­um. 



Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur
Þor­vald­ur Þórðar­son eld­fjalla­fræðing­ur mbl.is/​Sig­urður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert