Hélt bolta á lofti í tæpan hálftíma

Þátttakendur hafa lært mörg skemmtileg trix til að halda bolta …
Þátttakendur hafa lært mörg skemmtileg trix til að halda bolta á lofti undir handleiðslu Andrew Henderson. Ljósmynd/UMFÍ

Orri Bjarkason átti gott mót og vakti heilmikla athygli þegar hann hélt bolta á lofti í 22:52 mínútur á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki.

Ekki þurfti að skrá sig sérstaklega á viðburðinn og tóku margir þátt að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá UMFÍ.

Fyrir þá sem ekki trúa.
Fyrir þá sem ekki trúa. Ljósmynd/UMFÍ

„Þátttakendur hafa lært mörg skemmtileg trix til að halda bolta á lofti undir handleiðslu Andrew Henderson, sem er fimmfaldur heimsmeistari í Freestyle Football. Andrew hefur verið alla verslunarmannahelgina á Sauðárkróki. Hann sýndi listir sínar við setningu mótsins á föstudagskvöld og hefur haldið vinnubúðir fyrir alla þátttakendur þar sem börn og ungmenni læra sömu takta og Andrew hefur kennt knattspyrnugoðum eins og Neymar, Ronaldo og fleirum.“

Ljósmynd/UMFÍ

Líf og fjör á Unglingalandsmóti UMFÍ 

Unglingalandsmótið hefur farið vel fram á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Rúmlega þúsund þátttakendur eru skráðir til leiks í 18 keppnisgreinum og hafa leikar farið afar vel fram. Þar á meðal eru grashandbolti og grasblak auk kökuskreytinga, sem hafa slegið í gegn.  

Mikill fjöldi annarra viðburða var jafnframt í boði, til að mynda sandhlaup, bandý, badminton LED og blindrabolti. Foreldrar, forráðafólk og systkini hafa getað tekið þátt í öllum greinum sem boðið er upp á.  

Talið er að á milli 4.000 til 5.000 manns sæki mótið á Sauðárkróki og gista margir á tjaldsvæði sem sett var upp sérstaklega í tengslum við mótið.

Á mótinu voru settar upp rafhleðslustöðvar á tjaldsvæðinu fyrir fjórtán rafbíla í samstarfi við Rarik, sveitarfélagið Skagafjörð og HS Orku. Rafhleðslustöðvarnar og rafkerfið allt á tjaldsvæðinu er tengt inn á háspennustreng sem liggur ofan við byggðina á Sauðárkróki. 

Hástökkvari.
Hástökkvari. Ljósmynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert