Systurnar þrjár á Lambeyrum saka föðurbróður sinn, Valdimar Einarsson, um að hafa keyrt á föður þeirra, Skúla Einarsson, á dráttarvél eftir að hafa stolið tösku hans að loknum eigendafundi á Dönustöðum.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti hlaðvarpsins Lömbin þagna ekki, sem kom út fyrr í dag.
Að sögn systranna var aðdragandi árásarinnar sá að faðir þeirra, Skúli Einarsson, gleymdi töskunni sinni að loknum eigendafundi á Dönustöðum sem haldinn var 3. ágúst. Í töskunni var að finna tölvu og ýmis skjöl sem eru í eign Skúla. Systurnar segja Valdimar Einarsson, bróður Skúla, hafa tekið töskuna.
„Valdimar Einarsson tók töskuna í vitna viðurvist og áttu þau sem það sáu von á því að hann myndi skila töskunni strax til Skúla. Það gerði hann ekki,“ segir í frásögn systranna.
Þær segja föður sinn hafa fengið það staðfest daginn eftir að Valdimar hafi tekið töskuna, en eftir að hafa breytt lykilorðum sínum héldu þau Skúli og Ása, ein systranna þriggja, vestur til þess að freista þess að endurheimta hana.
Í þættinum ásaka systurnar Valdimar Einarsson meðal annars um að hafa keyrt dráttarvél á föður þeirra, Skúla Einarsson, en hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem systurnar deildu af atvikinu.
„Valdimar, ásamt bróður sínum Daða Einarssyni (föður ráðherra), var á leið í heyskap í Skógskot. Enn var reynt að hringja í Valdimar en hann svaraði ekki. Skúli reyndi að fá Valdimar til að stoppa við Skógskot til að ná tali af honum og spyrjast fyrir um töskuna og fartölvuna sína (sem inniheldur mikilvæg persónuleg gögn).
Valdimar stoppaði ekki en keyrði áfram og á Skúla með dráttarvélinni. Skúli náði að komast aðeins framar og lokaði hliðinu að Skógskoti og stóð fyrir aftan það. Valdimar ók þá á hliðið sem gaf eftir og skall á Skúla áður en hann náði að forða sér,“ segja systurnar.
„Við bendum á að Skúli er með slitna hásin, hann haltrar að staðaldri, og getur ekki hlaupið eða hreyft sig hratt. Valdimar keyrði áfram, yfir hliðið og eyðilagði það. Skúli fékk mar á hné, olnboga og úlnlið,“ segja systurnar sem lýsa atburðarásinni ítarlega í hlaðvarpsþættinum.
Systurnar telja það vera mikla mildi að ekki hafi farið verr, en taska Skúla er ekki enn komin í leitirnar. Að sögn systranna er málið komið inn á borð lögreglu.
Lambeyramálið snýst um hatrammar ættardeilur vegna jarðarinnar Lambeyra, en deilurnar hófust árið 2007 þegar afi systranna lést.
Í kjölfarið erfðist jörðin jafnt á milli átta systkina og keypti faðir systranna þriggja jörðina á uppboði árið 2017 eftir að faðir Ásmundar Einars Daðasonar, Daði Einarsson, hafði keyrt rekstur jarðarinnar í þrot að sögn systranna.
Í kjölfarið hafi verið framin síendurtekin skemmdarverk á jörðinni og hefur Ásmundur Einar meðal annars verið sakaður um innbrot.