„Húnavellir eru vel í sveit settir og möguleikar þar miklir, því ferðaþjónusta á þessu svæði er í miklum vexti,“ segir Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar. Sveitarfélagið hefur nú kynnt til sölu skólahúsin að Húnavöllum, með ýmsum byggingum sem þeim tilheyra. Skólahúsið sjálft er 2.847 fermetrar og hótelrými í gamalli heimavist um 1.100 fermetrar. Þá eru á staðnum íbúðarhús, leikskólabygging, íþróttahús, sundlaug, leiksvæði og stórt tjaldsvæði.
Stærstur hluti bygginga að Húnavöllum var reistur um 1970 þegar sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu sameinuðust um byggingu heimavistarskóla. Þangað sóttu börn úr sveitunum, sem voru mun fjölmennari þá en nú. Aðstæður hafa því breyst mikið og skólastarf sömuleiðis.
Blönduósbær og Húnavatnshreppur voru sameinaðir á sl. ári í nýtt sveitarfélag, Húnabyggð. Því fylgdi að skólahaldi á Húnavöllum var hætt. Sveitabörnum er nú ekið í Húnaskóla á Blönduósi. Sveitarfélagið hefur því engan rekstur á Húnavöllum fyrir utan leikskóla sem verður fluttur á Blönduós.
„Nú liggur fyrir að við ætlum að selja byggingarnar á Húnavöllum og við höfum að undanförnu rætt við fjárfesta sem sýna málinu áhuga. Einnig höfum við fengið til liðs við okkur ráðgjafa sem undirbúa söluna; ferli sem við gefum tímann fram í september. Vonandi má svo loka málinu með samningum við nýja eigendur í lok árs,“ segir Pétur.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag