Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að hið öfgakennda úrkomuveður sem gekk yfir Noreg í gær og hlaut nafnið Hans sé mjög óvenjulegt á þessum árstíma. „Þetta er auðvitað óvenjulegt að sumarlagi að fá svona lægð og svona mikla rigningu. Það sem er óvenjulegt er að veðrið kemur úr austri en ekki vestri eins og Norðmenn þekkja mjög vel.“
Eins og greint hefur verið frá gaf norska veðurstofan út rauðar veðurviðvaranir fyrir síðustu tvo daga vegna mikils úrhellis. Viðvörunin náði til Austur-Noregs norður af Osló, auk austustu hluta Sognsæs og Firðafylkis, Mæris og Raumsdals. Einar segir orsök veðursins eiga rætur að rekja til hlýs lofts sem reis frá Svartahafi og Asíu norður í átt að Noregi og Svíþjóð.
„Þetta gerist þannig að það er heit blaðra af lofti sem berst með rísandi bylgju til norðurs og mætir þar kaldara lofti og þá springur allt út. Í raun og veru tappar loftið af og blandar hitanum við kaldara loft og úr verður ofsarigning. Þetta er aflétting á spennu. Þetta byrjaði þannig að það var mikill raki yfir Miðjarðarhafinu fyrir helgi sem olli flóðum í Slóveníu og Austurríki en þetta hlýja loft sem fer svona norðarlega er upprunnið sunnan úr Kúrdistan og Litlu-Asíu.“
Spurður hvort lægðin yfir Noregi hafi haft einhver áhrif á veðrið hér á landi svarar Einar því neitandi og tekur fram að eldingar sem gengu yfir landið í gær og fyrradag séu ekki vegna afbrigðilegs veðurs í Noregi. „Það er svona við það að þetta hlýja loft og rigning sem er fremst í þessu komi við austurhluta landsins. Við erum í raun og veru utan við allt þetta svæði. Þessir miklu atburðir riðla þó allri lofthringrásinni,“ segir hann og tekur fram að þessi breyting gæti flutt hlýtt loft til landsins. „Nú er spurning hvort það nái að hafa áhrif í einhvern tíma, hlýju er spáð á fimmtudag og föstudag en hversu viðvarandi það verður er óvissan í þessu. Þetta hristir upp í hlutunum.“
Hann tekur þó fram að hin ofsafengna úrkoma og lægðin yfir Noregi hafi haft áhrif á veðurfar víða á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum í gær og fyrradag.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag