„Nú er þessu gosi lokið en eins og við þekkjum stöðuna á Reykjanesi kemur annað eldgos – og það kemur fyrr en síðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is um stöðu mála á Reykjanesi við goslok hjá Litla-Hrúti.
„Við erum komin í ákveðið virkt ástand sem við þurfum náttúrulega að nýta okkur sem best til þess að vera tilbúin að bregðast við þegar þessi eldgos fara að koma nær byggð, sem þau gera fljótlega,“ segir Ármann og kveður ályktanir síns rannsóknarhóps hníga að því að næstu gos verði nær Núpshlíðarhálsi. „Það voru svo miklar hreyfingar þar núna,“ bætir hann við.
Telur Ármann næstu gos munu verða á svæðinu frá Reykjanestá, Húllsvæðinu svokallaða, „því þegar þú ferð yfir Húllið ferðu í allt annars konar tektónískt [sem lýtur að jarðskorpuhreyfingum] ástand“, segir Ármann en Húllið er straumröst þar sem Reykjanesi lýkur og Eldeyjarkerfið tekur við.
„Þar erum við með tvö-þrjú eldgos á öld en um leið og þú kemur yfir Húllið og upp á land eru þessar hrinur sem eiga sér stað á 7-800 ára fresti. Það er vegna þess að flekamótin eru svo skökk, frá Húllinu og upp í Hengil. Þá fer hluti af gliðnuninni í að renna skorpunni með sjálfri sér, það fer ekki allt í gliðnunina sjálfa. Reykjanesið er mjög flókið kerfi og langt í frá að við skiljum það fullkomlega en við erum að skilja betur og betur hvernig það hagar sér,“ heldur Ármann áfram.
Þegar komið sé á Hengilssvæðið endar vesturgosbeltið svokallaða og þar eru um leið endimörk Reykjaneshryggsins sem er þúsund kílómetra langur. „Hann verður hlykkjóttur þegar kemur upp á land vegna gosbeltanna yfir honum, Íslandsgosbeltinu eða austurgosbelti og norðurgosbelti sem menn kalla þetta líka,“ útskýrir Ármann.
Vesturgosbeltið segir hann hins vegar tiltölulega nýtt gosbelti hjá Skjaldbreið og þar um slóðir. „Við getum dregið þá ályktun af því að öll kvika sem kemur þar upp er mjög frumstæð. Það gosbelti er ekki að deyja út, það var í Hvalfirði fyrir 800.000 til milljón árum og er mjög ungt gosbelti, þetta er endinn á Reykjaneshrygg sem er að fjara út, en það er ekkert sem segir að við getum ekki fengið eldgos núna í kringum Skjaldbreið,“ segir Ármann.
Skjálftar þar séu mjög staðbundnir og því vel mögulegt að þar sé kvika að troða sér inn á einhverju dýpi.
Aðspurður kveður Ármann litla ástæðu til að hafa áhyggjur af gosi á svæðinu kringum Skjaldbreið. „Við erum komin upp í fjöll og eldgos á fjöllum eru yfirleitt ekki áhyggjuefni nema þau séu mikil sprengigos eða stór gos eins og Holuhraunsgosið þannig að verði mikil gasframleiðsla, það eru engin mannvirki þarna nema einhverjar háspennulínur, það liggur ekkert mikið undir,“ segir Ármann.
Hann segir fræðimenn ekki sammála um hvort Skjaldbreiðarsvæðið sé deyjandi eða nýtt, „í gamla daga töluðu menn um að þetta væri deyjandi gosbelti en það hníga engin rök að því, þetta er allt saman mjög ungt og kvikan er mjög frumstæð sem bendir til þess að þarna sé óþroskað kerfi á ferð. Þarna megum við alveg búast við dyngjugosum, þetta svæði er þakið dyngjum, þarna gæti orðið stórt eða lítið gos, stutt eða langvarandi, það er ómögulegt að segja fyrr en eitthvað kemur þarna upp,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur að lokum.