Nokkuð um Covid-sýkingar meðal heilbrigðisstarfsfólks

Margir gerðu sér glaðan dag um verslunarmannahelgina en því fylgja …
Margir gerðu sér glaðan dag um verslunarmannahelgina en því fylgja stundum eftirmálar. mbl.is/Óttar

Margir nældu sér í pestir um verslunarmannahelgina og nokkuð hefur verið um Covid-sýkingar meðal heilbrigðisstarfsmanna að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Bítur einnig heilbrigðisstarfsfólk

Ekki er skimað fyrir Covid og því ekki til gögn um fjölda smita en algengt er að fólk noti sjálfspróf og leiti síðan á heilsugæslu. Spurð hvort hún telji fleiri leita til heilsugæslu vegna Covid eftir verslunarmannahelgi segir Ragnheiður:

„Þetta er allavega meira í umræðunni. Það er okkar tilfinning en við höfum engar mælingar til þess að styðjast við. En ég sé það hér innanhúss að þetta er líka að bíta heilbrigðisstarfsfólk. Við erum aðeins að glíma við þetta líka en þetta stingur sér allsstaðar niður.“ Þrátt fyrir sumarfrí og veikindi höndli heilsugæslan álagið ágætlega.

Hótel hafi vísað ferðamönnum á heilsugæslu

Nú er litið á Covid sem almenna flensu og beinir heilsugæslan því til fólks að stunda almennar smitvarnir, gæta sín og vera ekki út um allt þegar það er lasið.

„Við erum ekki markvisst að skima eða taka sýni eins og var áður. Það var svolítið um það að fólk var að hafa samband við okkur eftir að hafa tekið heimapróf. En við getum lítið gert nema fólk sé veikt. Á tímabili voru hótelin til dæmis að senda til okkar ferðamenn vegna þess að þeir voru að greinast með veiruna. Við gerum ekki neitt vegna þess að þetta er bara veirusýking og fólk þarf að ná sér. Hugsa um sig og ná heilsu.“

Spurð hvort meira sé um Covid nú en síðasta sumar segir Ragnheiður að vetrarflensan hafi verið helsta viðfangsefnið í vetur frekar en Covid.

„Venjulegt fólk ræður auðveldlega við flensuna en viðkvæmt fólk ætti að láta bólusetja sig. Covid kemur svolítið við hliðina á þeirri flensu, getur leikið þá grátt sem eru eldri og viðkvæmir fyrir.“

Í lokin tekur Ragnheiður fram best sé að hafa almennar smitvarnir í hávegi til þess að forðast veikindi almennt, hvort sem það er Covid, vetrarflensa eða önnur pest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka