„Þetta er að mínu mati púsl sem hefur vantað inn á húsnæðismarkaðinn,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, um uppbyggingu íbúða í eigu leigufélagsins Blævar. Fyrsta skóflustungan að íbúðum við Silfratjörn var tekin í Úlfarsárdal í dag.
VR sér um fjármögnun verkefnisins en sérstaða þess er að engin tekju- eða eignamörk eru til staðar líkt og hjá Bjargi, sem nýtur fjármögnunar hins opinbera. Fyrsta verkefni Blævar er að byggja 38 íbúðir í Úlfarsárdal sem leigðar verða félagsfólki í VR.
„Við höfum frábæra reynslu af því að vinna með verkalýðshreyfingunni. Árið 2016 var Bjarg stofnað og er núna á góðri leið með að byggja 1.000 íbúðir í Reykjavík fyrir fólk með lægstu launin. Nú er verið að stíga fram með félagi sem heitir Blær og byggir hér íbúðir fyrir fólk með aðeins hærri tekjur sem þarf samt öruggt húsnæði og vill vera í leigu,“ segir Dagur.
Ekki hafi verið vanþörf á verkefninu en umræða um húsnæðisvanda innan borgarinnar hefur verið ofarlega á baugi undanfarin misseri.
„Hafandi svona trausta og öfluga aðila eins og verkalýðshreyfinguna á bakvið svona verkefni, þá vitum við einfaldlega af reynslu að þá kemur kraftur og bolmagn til þess að gera þetta stærra og hraðar en aðrir hafa gert.“
Dagur viðurkennir að verkefnið hefur tekið tíma en þegar skóflunni sé stungið í jörðina fari hjólin að snúast.
„Þetta hefur tekið svolítinn tíma í undirbúningi. Ég hef verið smá óþolinmóður líkt og Ragnar nefndi hér áðan en ég veit hvað það er mikið búið þegar það er tímabært að taka fyrstu skóflustunguna.“