„Það er verið að skera regnbogafána“

Nýjum hinseginfána hefur verið flaggað fyrir utan Á. Óskarsson.
Nýjum hinseginfána hefur verið flaggað fyrir utan Á. Óskarsson. Ljósmynd/Heiðar Reyr Ágústsson

Það var afar dapurleg sjón sem blasti við Heiðari Reyr Ágústssyni, framkvæmdastjóra Á. Óskarsson ehf. þegar hann mætti til vinnu í morgun. Þá hafði verið skorið á bönd hinseginfána sem flaggað hafði fyrir utan fyrirtækið og fáninn numinn á brott.  

Heiðar, sem tekur þátt í gleðigöngunni á laugardaginn, segir það hafa verið ömurlegt að koma að fánastönginni skemmdri og fánanum horfnum.  

Fáninn tákni gleði og mannvirðingar

„Þetta var mjög óþægilegt að sjá og vakti ömurlega tilfinningar, segir Heiðar. „Þetta er litskrúðugur fáni sem táknar gleði, mannvirðingu og annað og það er ótrúlegt að fólk skuli eiga það mikið bágt að það láti þetta fara í taugarnar á sér.“ 

Að sögn Heiðars sýnir verknaður af þessu tagi fram á það að enn eigi mannréttindabarátta hinseginfólks langt í land.  

„Þetta sýnir það greinilega að baráttan fyrir tilverurétti hinseginfólks er aldrei búin og að ef henni er ekki sinnt dettur hún bara til baka. Það er mikilvægt fyrir okkur akkúrat núna að auka sýnileikann og halda baráttunni virkri og áberandi.“ 

Óvenjumikið um skemmdarverk af þessu tagi

Málið er komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en unnin hafa verið skemmdarverk á hinseginfánum víðar í Mosfellsbæ.  

Lögreglan kom og sagði mér að þetta yrði flokkað sem hatursglæpur. Hún sagði mér líka að það væri óvenjumikið um glæpi af þessu tagi í ár. Það er sumsé talsvert um það að verið sé að skera regnbogafána, segir Heiðar.  

Ég hvet alla sem að eiga fánastangir til þess að verða sér úti um regnbogafána og flagga til þess að sýna að við sem þjóð líðum ekki svona skemmdarverk og níðingsverk,“ segir Heiðar loks.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka