„Þetta hefur risastóra þýðingu“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, steig um borð í gröfu …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, steig um borð í gröfu við mikinn fögnuð viðstaddra. Fyrsta skóflustungan að íbúðum Blævar var tekin í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta skóflustungan að íbúðum leigufélagsins Blævar var tekin við Silfratjörn í dag, að viðstöddum Degi B. Eggertsyni borgarstjóra Reykjavíkur, Ragnari Þóri Ingólfssyni, formanni VR, og fleiri fulltrúum VR, Alþýðusambands Íslands og BSRB.  

„Þetta hefur risastóra þýðingu, sérstaklega fyrir markaðinn þar sem þetta er nýtt félag sem er búið að vera í nokkur ár í undirbúningi. Með Bjargi byrjaði þetta á nokkrum íbúðum sem eru að verða hátt í þúsund í dag. Við ætlum okkur stóra hluti,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í höndina á Degi …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í höndina á Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, við fyrstu skóflustunguna að íbúðum Blævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ekki er verið að selja ofan af fólki“

Íbúðir sem byggðar eru á vegum leigufélagsins Blævar njóta fjármögnunar VR og eru ætlaðar félagsfólki VR. Félagið er ekki ósvipað leigufélaginu Bjargi en helsti munurinn er sá að skorður eru settar á tekju- og eignamörk þeirra sem leigja íbúðir Bjargs og má leiga því ekki fara upp fyrir 25% launatekna. Hjá Blæ eru engar slíkar takmarkanir settar.

„Blær er ekki óhagnaðardrifið félag en byggir á fyrst og fremst á hugmyndafræði sem snýr að búsetu- og framfærsluöryggi. Langtímaleigu sem veitir öryggi, bæði frá tíðum hækkunum umfram vísitölu, sem fólk lendir í á leigumarkaði en líka húsnæðisöryggi, þar sem ekki er verið að selja ofan af fólki,“ segir Ragnar.

„Ekki seinna vænna að byrja“

Bjarg nýtur stofnstyrkja frá hinu opinbera en VR sér um fjármögnun Blævar. Fjárfestingum af verkefnum Blævar er ætlað að skila hófsömum arði til fjárfesta og er því félagið kallað lághagnaðardrifið leigufélag.

„Við erum að kalla eftir því að fá lífeyrissjóðina inn í fjárfestingu eins og gerist í Evrópu og Norðurlöndunum. Blær er að stórum hluta að fyrirmynd Norðurlandanna og Evrópu þar sem lífeyrissjóðir og önnur félagasamtök koma að þessari uppbyggingu að myndarskap.“

Spurður hvort hann sjái fram á að uppbyggingin verði meiri á komandi árum segir Ragnar:

„Við erum nú þegar byrjuð að funda með sveitarfélögum um að fá fleiri lóðir. Rétt eins og með Bjarg þá tekur þessi uppbygging tíma og ekki seinna vænna að byrja á meðan staðan er eins og hún er á húsnæðismarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert