2,7 milljarða uppbygging

Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að frá árinu 2018 hafi …
Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að frá árinu 2018 hafi yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til efnislegra innviða á yfir 170 stöðum um allt land og „hafa umsjónaraðilar margra svæðanna unnið þrekvirki við að gera staðina betur í stakk búna til þess að taka á móti auknum gestafjölda.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 908 milljónum króna verður úthlutað úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á þessu ári samkvæmt úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum sem samþykkt hefur verið af Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, að því er ráðuneytið greinir frá í tilkynningu. 

Úthlutanir ársins munu gera kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp efnislega innviði á ferðamannastöðum, s.s. göngustíga, útsýnispalla, bílastæði og salerni. Aukin áhersla er á langtímaáætlanir í uppbyggingu staða, en einnig á aukna miðlun og merkingar, ekki síst á stöðum þar sem samspil er á milli náttúru og menningarsögulegra minja, segir í tilkynningunni. 

Fram kemur, að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sé stefnumarkandi áætlun sem Alþingi hafi samþykkt árið 2018. Verkefnaáætlanir eru gerðar til þriggja ára og eru uppfærðar á hverju ári. Ný verkefnaáætlun sem ráðherra hefur nú kynnt nær til áranna 2023-2025.

Þá segir, að alls séu nú 127 verkefni á áætlun næstu þriggja ára á rúmlega 82 ferðamannastöðum, þar af séu 56 ný verkefni sem bætist við að þessu sinni.

„Þar má nefna gerð hringleiðar um Stöng og Gjána í Þórsárdal, undirbúning að endurnýjun brúar yfir Öxará á Þingvöllum og uppbyggingu stígakerfis í Þingvallahrauni, uppbyggingu göngustígs og vatnssalerna í Vatnsfirði, gerð útsýnispalla, áningarbekkja og þurrsalerna í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs, áframhald uppbyggingar innviða fyrir ferðamenn í Ólafsdal í Gilsfirði, hönnun og framkvæmdir við ferðamannastaðinn Hvítserk, göngustíga við Jökulsárlón og stækkun bílastæðis við Keldur á Rangárvöllum. Áfram verður haldið með uppbyggingu á Gullfossi með það að markmiði að koma til móts við ólíka hópa ferðamanna. Þá er stefnt að því að ljúka uppbyggingu á Geysissvæðinu á gildistíma áætlunarinnar í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert