Reykjanesskaginn er vaknaður til lífsins og hafa jarðvísindamenn og fleiri lýst yfir áhyggjum af innviðum sem gætu verið í hættu vegna eldsumbrotanna.
Enn sem komið er hefur ekkert stórtjón orðið vegna hraunflæðis og bæði Suðurstrandarvegur og Reykjanesbraut sloppið vel.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, og Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, ræddu eldsumbrotin á Reykjanesskaga í nýjasta þætti Dagmála.
„Við erum búin að fá alveg fjöldann allan af hraunflæðilíkönum og menn hafa svona verið að geta sér til um það hvenær kunni að vera svo komið að það flæði hraun yfir Suðurstrandarveginn. Þær spár hafa nú ekki staðist og ég veit að það er mjög erfitt að spá fyrir um slíkt vegna þess að hraunið hegðar sér ekki eins og vatn.
Vatnið bara leitar þeirra leiða sem lægst liggja en hraunið getur verið að bunka sig upp og tekið á sig ótrúlega margbreytilegar myndir varðandi rennsli. Það er til dæmis það erfiða sem menn eiga við að glíma,“ segir Fannar.
Hann segir áætlanir um hvernig eigi að bregðast við ef hraunflæði skyldi ógna mannvirkjum, línulögnum eða vegakerfinu, hafa verið til staðar áður en eldgosið við Fagradalsfjall braust út árið 2021.
„Þetta er allt saman löngu, löngu yfirfarið og kortlagt. Gallinn er sá að það er ekki hægt að setja upp einhverja varnargarða nema að vita eiginlega hvar gosupptökin verða. Vegna þess að annars væru varnargarðar hreint um allar trissur.“