Hágrét með bros á vör

„Ég er svakalega ánægð að hafa upplifað að fá að …
„Ég er svakalega ánægð að hafa upplifað að fá að spila fótbolta og þetta hefur verið draumur. Það er mikill heiður og ég elskaði hverja einustu stund þótt stundum hafi verið erfitt," segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. mbl.is/Ásdís

Einka­barnið á heim­il­inu, tík­in Bo Jackson, tók ofsa­kát á móti blaðamanni þegar hann bankaði upp á hjá fót­bolta­kon­unni Gunn­hildi Yrsu Jóns­dótt­ur í Urriðaholt­inu. Eft­ir stutt­an dans við blaðamann hljóp Bo út í garð að leika og gát­um við þá fyrst sest niður yfir kaff­inu. Gunn­hild­ur til­kynnti ný­lega að hún væri hætt í ís­lenska landsliðinu og at­vinnu­mennska í Banda­ríkj­un­um heyr­ir nú fortíðinni til. Hún er þó ekki hætt að spila fót­bolta og spil­ar í dag með Stjörn­unni, sínu upp­eld­is­fé­lagi.

Gunnhildur Yrsa barðist alltaf eins og ljon á vellinum. Hún …
Gunn­hild­ur Yrsa barðist alltaf eins og ljon á vell­in­um. Hún spil­ar nú með sínu upp­eld­isliði, Stjörn­unni. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Gunn­hild­ur stend­ur á nokkr­um tíma­mót­um; hún er ný­flutt heim til Íslands, er nýgift og hyggst snúa sér að fleiru en fót­bolta sem átt hef­ur hug henn­ar all­an síðan hún var lít­il stúlka. Hún er spennt fyr­ir framtíðinni og hlakk­ar til að losna við streit­una sem hún seg­ir fylgja at­vinnu­mennsk­unni.

Tap tek­ur á sál­ina

Metnaður fyr­ir fót­bolt­an­um óx með hverju ár­inu eft­ir þessa fyrstu æf­ingu í Conn­ecticut-ríki þegar Gunn­hild­ur var níu ára. Hún kunni strax vel við sig á vell­in­um, en fann fljótt hversu taps­ár hún var.

„Ég er ógeðslega taps­ár,“ seg­ir hún og seg­ir að hin hliðin á pen­ingn­um sé keppn­is­skapið.

„Ef ég væri ekki með þetta keppn­is­skap hefði ég aldrei náð svona langt í fót­bolta. Ég er ekki hæfi­leika­rík­asti leikmaður­inn; langt í frá. En ég vildi ekki tapa og lagði ótrú­lega mikið á mig,“ seg­ir hún og seg­ir hug­ar­far sitt sinn helsta styrk­leika sem fót­bolta­manns.

„Ég gefst aldrei upp. Ég gef alltaf 110% í alla leiki. Ég er drif­kraft­ur með mikla orku og það þarf alltaf einn svo­leiðis í öll lið og ég hef tekið það að mér.“

Nú vinn­ur maður ekki alla leiki; hvernig bregstu við tapi?

„And­lega hliðin tek­ur á og þetta hef­ur verið upp og niður and­lega á ferl­in­um. Ég hef ekki opnað mig mikið með það, en það hafði mik­il áhrif á mig að tapa og sér­stak­lega í at­vinnu­mennsk­unni. Það er ekk­ert sem tek­ur við þegar þú kem­ur heim. Ég er bara þannig leikmaður að ef ég tapa leik tek ég svo mikla ábyrgð og ber það með mér næstu daga. Ef maður lend­ir í törn­um þar sem maður er ekki að vinna tek­ur það á sál­ina. Ég var heltek­in af því að vinna allt og gera bet­ur og það tek­ur líka smá gleðina úr þessu, “ seg­ir hún.

„Þessi and­lega hlið er ekki mikið rædd í fót­bolta og fólk held­ur mann bara vera að lifa draum­inn og að allt sé geggjað. En í raun­inni er það ekki alltaf svo. Í fyrra var ör­ugg­lega erfiðasta árið á ferl­in­um, með EM, við kom­umst ekki upp úr riðlin­um og vor­um 30 sek­únd­um frá því að tryggja okk­ur á HM. Or­lando var að ganga í gegn­um mikl­ar breyt­ing­ar og mikið drama. Þá sá ég að þetta tók of mikla orku og skilaði ekki jafn miklu og áður. Þá vissi ég að ég þyrfti að fara að gera aðra hluti,“ seg­ir Gunn­hild­ur og seg­ir því ákvörðun­ina að flytja heim ekki hafa verið erfiða í ljósi aðstæðna.

„Nú er ég að vinna og þjálfa og er á leiðinni í nám í fötl­un­ar­fræðum. Kannski er fót­bolt­inn ekki allt,“ seg­ir hún kank­vís.

Báðar að hugsa um bón­orð

Eft­ir að liðið í Utah var selt til ann­ars rík­is átti Gunn­hild­ur að fylgja, en þar sem Erin var að spila í Or­lando flutti hún þangað og fór að spila þar.

„Fjöl­skyld­an mín bjó líka þar þannig að það var gott næsta skref,“ seg­ir Gunn­hild­ur en eig­in­kon­an heit­ir fullu nafni Erin Mc­Leod og er markmaður, nú hjá Stjörn­unni.

Hvenær kynnt­ust þið Erin?

„Ég kynnt­ist henni árið 2019 þegar besta vin­kona mín, sem spil­ar með kanadíska landsliðinu, kom okk­ur sam­an. Erin var þá í Svíþjóð og ég í Utah þannig að það var ótrú­lega langt á milli okk­ar, en allt í einu fékk ég skila­boð frá Erin. Al­veg frá fyrstu kynn­um náðum við svo vel sam­an og hún skellti sér í heim­sókn til mín. Eft­ir það varð ekki aft­ur snúið,“ seg­ir Gunn­hild­ur og bros­ir.

„Við gát­um talað enda­laust sam­an, erum með sömu áhuga­mál og sömu gild­in í líf­inu,“ seg­ir Gunn­hild­ur en þess má geta að með kanadíska landsliðinu hef­ur Erin unnið ólymp­íug­ull og -brons og farið á fjög­ur heims­meist­ara­mót.

„Hún hef­ur líka slitið kross­bönd þris­var þannig að við höf­um gengið í gegn­um svipaða hluti. Við erum báðar bar­áttu­mann­eskj­ur,“ seg­ir hún og seg­ir þær hafa spilað sam­an í Or­lando í tvö ár, sem hafi verið ákaf­lega skemmti­legt.

„Við Erin gift­um okk­ur núna í byrj­un janú­ar í bak­g­arðinum hjá mömmu og pabba í Flórída og það var litla syst­ir mín, Ilm­ur, sem gifti okk­ur. Hún stal al­gjör­lega sen­unni, hún er fædd í þetta hlut­verk,“ seg­ir hún og seg­ir að seinna meir hygg­ist þær halda stórt brúðkaup.

Gunnhildur giftist ástinni sinni Erin í janúar í Flórída. Þær …
Gunn­hild­ur gift­ist ást­inni sinni Erin í janú­ar í Flórída. Þær voru báðar að plana bón­orð en Gunn­hild­ur varð fyrri til. Ljós­mynd/​Jeremy Reper

Hver bar upp bón­orðið?

„Ég bað henn­ar á lista­safni fyr­ir fram­an verk eft­ir Jean-Michel Basquiat. Erin er mik­il lista­kona og elsk­ar bæði að heim­sækja lista­söfn og skapa sín eig­in verk. Það var eng­inn á safn­inu, sem bet­ur fer,“ seg­ir hún.

„Ég hafði sagt einni vin­konu minni, Toni, sem nú spil­ar með Breiðabliki, frá þessu og hún ætlaði að koma og taka mynd­ir. En það fyndna var að sama dag fór Erin til Toni og bað hana um hjálp því hún ætlaði að biðja mín. Við feng­um sömu hug­mynd á sama tíma og hún var að fara að panta hringa,“ seg­ir Gunn­hild­ur og seg­ist hafa farið niður á annað hnéð.

„Ég gerði þetta al­menni­lega því ég vissi að það væri þýðing­ar­mikið fyr­ir hana. Ég vildi hafa þetta upp­lif­un fyr­ir hana. Maður þarf stund­um að fórna sér fyr­ir málstaðinn,“ seg­ir Gunn­hild­ur og á við að svona bón­orð sé kannski ekki beint í henn­ar anda.

Hvernig voru viðbrögðin?

„Hún fór bara að há­gráta. Hún eig­in­lega trúði þessu ekki því ég er ekki þessi týpa. Þess vegna vissi ég að þetta myndi koma henni mikið á óvart og hún var í sjokki. Ég er frek­ar lokuð mann­eskja en Erin er mik­il til­finn­inga­vera og sú okk­ar sem græt­ur yfir aug­lýs­ing­um,“ seg­ir hún og bros­ir.

„Erin fann í vet­ur að það væri einnig kom­inn tími til að segja stopp í at­vinnu­mennsk­unni í Banda­ríkj­un­um og flutti með mér hingað. Hún er sem bet­ur fer ótrú­lega ánægð hér.“

Elskaði hverja stund

Stutt er síðan Gunn­hild­ur til­kynnti að hún væri hætt með ís­lenska landsliðinu og seg­ir ákvörðun­ina hafi verið erfiða en nauðsyn­lega.

„Ég hef nú ekki grátið mikið en þegar ég til­kynnti landsliðinu þetta þá há­grét ég. Auðvitað var þetta til­finn­ingaþrung­in stund. En þetta var rétti tím­inn og ég var búin að vita þetta lengi. Ég há­grét samt, með bros á vör. Ég er mjög stolt af því að hafa náð að spila með landsliðinu í yfir hundrað leikj­um. Auðvitað verður skrítið að vera ekki leng­ur með landsliðinu en nú er yngri kyn­slóðin til­bú­in. Þetta eru flott­ar stelp­ur og það verður gam­an að fylgj­ast með þeim.“

Gunn­hild­ur er afar glöð að vera kom­in heim og seg­ir vinn­una með fötluðum gefa líf­inu til­gang.

„Þetta var ein­hæf­ara úti þegar ég var bara að spila fót­bolta. Ég er mun ánægðari núna,“ seg­ir hún.

Gunnhildur Yrsa og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagna marki gegn Slóveníu …
Gunn­hild­ur Yrsa og Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir fagna marki gegn Slóven­íu í sept­em­ber árið 2017. mbl.is/​Eggert

„Nú ætla ég að halda áfram í þessu, fara í nám og sjá hvert lífið leiðir mann.“

Nú þegar þú ert hætt í at­vinnu­mennsku, get­urðu þá aðeins slakað á?

„Já, ein ástæða þess að ég vil stíga til hliðar er til að ég geti tekið aðeins press­una af sjálfri mér. Ég vaknaði stund­um á næt­urn­ar að hugsa um leiki,“ seg­ir Gunn­hild­ur og seg­ir vont þegar kvíðinn nær tök­um á henni. Hún sér þó ekki eft­ir neinu og er þakk­lát fyr­ir tæki­fær­in sem hún fékk í líf­inu.

„Ég er svaka­lega ánægð að hafa upp­lifað að fá að spila fót­bolta og þetta hef­ur verið draum­ur. Það er mik­ill heiður og ég elskaði hverja ein­ustu stund þótt stund­um hafi verið erfitt.“

Ítar­legt viðtal er við Gunn­hildi í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert