Einkabarnið á heimilinu, tíkin Bo Jackson, tók ofsakát á móti blaðamanni þegar hann bankaði upp á hjá fótboltakonunni Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur í Urriðaholtinu. Eftir stuttan dans við blaðamann hljóp Bo út í garð að leika og gátum við þá fyrst sest niður yfir kaffinu. Gunnhildur tilkynnti nýlega að hún væri hætt í íslenska landsliðinu og atvinnumennska í Bandaríkjunum heyrir nú fortíðinni til. Hún er þó ekki hætt að spila fótbolta og spilar í dag með Stjörnunni, sínu uppeldisfélagi.
Gunnhildur stendur á nokkrum tímamótum; hún er nýflutt heim til Íslands, er nýgift og hyggst snúa sér að fleiru en fótbolta sem átt hefur hug hennar allan síðan hún var lítil stúlka. Hún er spennt fyrir framtíðinni og hlakkar til að losna við streituna sem hún segir fylgja atvinnumennskunni.
Metnaður fyrir fótboltanum óx með hverju árinu eftir þessa fyrstu æfingu í Connecticut-ríki þegar Gunnhildur var níu ára. Hún kunni strax vel við sig á vellinum, en fann fljótt hversu tapsár hún var.
„Ég er ógeðslega tapsár,“ segir hún og segir að hin hliðin á peningnum sé keppnisskapið.
„Ef ég væri ekki með þetta keppnisskap hefði ég aldrei náð svona langt í fótbolta. Ég er ekki hæfileikaríkasti leikmaðurinn; langt í frá. En ég vildi ekki tapa og lagði ótrúlega mikið á mig,“ segir hún og segir hugarfar sitt sinn helsta styrkleika sem fótboltamanns.
„Ég gefst aldrei upp. Ég gef alltaf 110% í alla leiki. Ég er drifkraftur með mikla orku og það þarf alltaf einn svoleiðis í öll lið og ég hef tekið það að mér.“
Nú vinnur maður ekki alla leiki; hvernig bregstu við tapi?
„Andlega hliðin tekur á og þetta hefur verið upp og niður andlega á ferlinum. Ég hef ekki opnað mig mikið með það, en það hafði mikil áhrif á mig að tapa og sérstaklega í atvinnumennskunni. Það er ekkert sem tekur við þegar þú kemur heim. Ég er bara þannig leikmaður að ef ég tapa leik tek ég svo mikla ábyrgð og ber það með mér næstu daga. Ef maður lendir í törnum þar sem maður er ekki að vinna tekur það á sálina. Ég var heltekin af því að vinna allt og gera betur og það tekur líka smá gleðina úr þessu, “ segir hún.
„Þessi andlega hlið er ekki mikið rædd í fótbolta og fólk heldur mann bara vera að lifa drauminn og að allt sé geggjað. En í rauninni er það ekki alltaf svo. Í fyrra var örugglega erfiðasta árið á ferlinum, með EM, við komumst ekki upp úr riðlinum og vorum 30 sekúndum frá því að tryggja okkur á HM. Orlando var að ganga í gegnum miklar breytingar og mikið drama. Þá sá ég að þetta tók of mikla orku og skilaði ekki jafn miklu og áður. Þá vissi ég að ég þyrfti að fara að gera aðra hluti,“ segir Gunnhildur og segir því ákvörðunina að flytja heim ekki hafa verið erfiða í ljósi aðstæðna.
„Nú er ég að vinna og þjálfa og er á leiðinni í nám í fötlunarfræðum. Kannski er fótboltinn ekki allt,“ segir hún kankvís.
Eftir að liðið í Utah var selt til annars ríkis átti Gunnhildur að fylgja, en þar sem Erin var að spila í Orlando flutti hún þangað og fór að spila þar.
„Fjölskyldan mín bjó líka þar þannig að það var gott næsta skref,“ segir Gunnhildur en eiginkonan heitir fullu nafni Erin McLeod og er markmaður, nú hjá Stjörnunni.
Hvenær kynntust þið Erin?
„Ég kynntist henni árið 2019 þegar besta vinkona mín, sem spilar með kanadíska landsliðinu, kom okkur saman. Erin var þá í Svíþjóð og ég í Utah þannig að það var ótrúlega langt á milli okkar, en allt í einu fékk ég skilaboð frá Erin. Alveg frá fyrstu kynnum náðum við svo vel saman og hún skellti sér í heimsókn til mín. Eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir Gunnhildur og brosir.
„Við gátum talað endalaust saman, erum með sömu áhugamál og sömu gildin í lífinu,“ segir Gunnhildur en þess má geta að með kanadíska landsliðinu hefur Erin unnið ólympíugull og -brons og farið á fjögur heimsmeistaramót.
„Hún hefur líka slitið krossbönd þrisvar þannig að við höfum gengið í gegnum svipaða hluti. Við erum báðar baráttumanneskjur,“ segir hún og segir þær hafa spilað saman í Orlando í tvö ár, sem hafi verið ákaflega skemmtilegt.
„Við Erin giftum okkur núna í byrjun janúar í bakgarðinum hjá mömmu og pabba í Flórída og það var litla systir mín, Ilmur, sem gifti okkur. Hún stal algjörlega senunni, hún er fædd í þetta hlutverk,“ segir hún og segir að seinna meir hyggist þær halda stórt brúðkaup.
Hver bar upp bónorðið?
„Ég bað hennar á listasafni fyrir framan verk eftir Jean-Michel Basquiat. Erin er mikil listakona og elskar bæði að heimsækja listasöfn og skapa sín eigin verk. Það var enginn á safninu, sem betur fer,“ segir hún.
„Ég hafði sagt einni vinkonu minni, Toni, sem nú spilar með Breiðabliki, frá þessu og hún ætlaði að koma og taka myndir. En það fyndna var að sama dag fór Erin til Toni og bað hana um hjálp því hún ætlaði að biðja mín. Við fengum sömu hugmynd á sama tíma og hún var að fara að panta hringa,“ segir Gunnhildur og segist hafa farið niður á annað hnéð.
„Ég gerði þetta almennilega því ég vissi að það væri þýðingarmikið fyrir hana. Ég vildi hafa þetta upplifun fyrir hana. Maður þarf stundum að fórna sér fyrir málstaðinn,“ segir Gunnhildur og á við að svona bónorð sé kannski ekki beint í hennar anda.
Hvernig voru viðbrögðin?
„Hún fór bara að hágráta. Hún eiginlega trúði þessu ekki því ég er ekki þessi týpa. Þess vegna vissi ég að þetta myndi koma henni mikið á óvart og hún var í sjokki. Ég er frekar lokuð manneskja en Erin er mikil tilfinningavera og sú okkar sem grætur yfir auglýsingum,“ segir hún og brosir.
„Erin fann í vetur að það væri einnig kominn tími til að segja stopp í atvinnumennskunni í Bandaríkjunum og flutti með mér hingað. Hún er sem betur fer ótrúlega ánægð hér.“
Stutt er síðan Gunnhildur tilkynnti að hún væri hætt með íslenska landsliðinu og segir ákvörðunina hafi verið erfiða en nauðsynlega.
„Ég hef nú ekki grátið mikið en þegar ég tilkynnti landsliðinu þetta þá hágrét ég. Auðvitað var þetta tilfinningaþrungin stund. En þetta var rétti tíminn og ég var búin að vita þetta lengi. Ég hágrét samt, með bros á vör. Ég er mjög stolt af því að hafa náð að spila með landsliðinu í yfir hundrað leikjum. Auðvitað verður skrítið að vera ekki lengur með landsliðinu en nú er yngri kynslóðin tilbúin. Þetta eru flottar stelpur og það verður gaman að fylgjast með þeim.“
Gunnhildur er afar glöð að vera komin heim og segir vinnuna með fötluðum gefa lífinu tilgang.
„Þetta var einhæfara úti þegar ég var bara að spila fótbolta. Ég er mun ánægðari núna,“ segir hún.
„Nú ætla ég að halda áfram í þessu, fara í nám og sjá hvert lífið leiðir mann.“
Nú þegar þú ert hætt í atvinnumennsku, geturðu þá aðeins slakað á?
„Já, ein ástæða þess að ég vil stíga til hliðar er til að ég geti tekið aðeins pressuna af sjálfri mér. Ég vaknaði stundum á næturnar að hugsa um leiki,“ segir Gunnhildur og segir vont þegar kvíðinn nær tökum á henni. Hún sér þó ekki eftir neinu og er þakklát fyrir tækifærin sem hún fékk í lífinu.
„Ég er svakalega ánægð að hafa upplifað að fá að spila fótbolta og þetta hefur verið draumur. Það er mikill heiður og ég elskaði hverja einustu stund þótt stundum hafi verið erfitt.“
Ítarlegt viðtal er við Gunnhildi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.