„Hrinan er kröftug“

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Samsett mynd

„Hrinan er kröftug, það er alveg klárt. Við þurfum að bíða og sjá hvað gerist þarna. Það hefur gosið þarna einstaka sinnum og það getur alveg gerst. Það er ekki útilokað.“

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um skjálftahrinuna sem hófst laust eftir klukkan 19.30 í dag nærri Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg. Yfir 100 skjálftar hafa mælst á svæðinu en engin merki eru um að órói fylgi hrinunni. Stærsti skjálftinn var um 4,5 að stærð.

„Ómögulegt að segja“

„Það hafa nú verið hrinur þarna áður sem hafa ekki endað með eldgosi en hvert þetta leiðir er alveg ómögulegt að segja,“ segir Magnús og ítrekar að ekki fáist jafn góð mynd af skjálftahrinu út á hafi miðað við á landi þar sem lengra sé á milli mæla.

„Þetta er út í hafi og það er engin tilviljun að heildar eldvirknin er minni út á hafi, það er ástæðan fyrir því að landið stendur upp úr sjónum,“ segir hann kíminn.

Gjóskufall gæti truflað flugumferð

Spurður hvaða þýðingu mögulegt neðansjávargos á þessu svæði myndi hafa segir hann að það gæti haft áhrif á flugumferð til og frá Keflavíkurflugvelli.

„Gos í hafi undan Reykjanesi gæti valdið verulegum truflunum á Keflavíkurflugvelli. Það yrði bara gjóskufall eins og í Surtsey. Það gæti gerst.“

Magnús tekur fram að langflestar skjálftahrinur leiði ekki til eldgoss.

„Það hafa orðið plötuhreyfingar þarna í tengslum við gosvirknina, núna síðustu ár. Það getur haft áhrif á spennurnar annars staðar, það getur orðið aukin skjálftavirkni annars staðar í framhaldinu sem þarf ekki að þýða að það sé eitthvað mikið að fara af stað.“ 

Gosið áður á sama svæði

Hann minnir þó á að það hafi gerst á jarðsögunni að það hafi gosið út á hafi undan Reykjaneshrygg. Hann ítrekar þó að það hafi ekki gerst oft og að þau gos hafi ekki verið stór.

„Það gerðist á þrett­ándu öld, en einnig lík­lega á þeirri tí­undu og tólftu. Um­rædd neðan­sjáv­ar­gos komu gjarn­an í kjöl­farið af gos­um á landi. Því er ekki úti­lokað að nú­ver­andi þróun gæti leitt til neðan­sjáv­ar­goss á Reykja­nes­hrygg,“ sagði Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur í samtali við mbl.is í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert