Sjö útköll borist þyrlusveitum það sem af er helgi

Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út sjö sinnum það sem …
Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út sjö sinnum það sem af er helgi. Fjögur útköll bárust á föstudag og þrjú í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég man ekki eftir mörgum helgum, og nú er helgin ekki búin, þar sem farið hefur verið í svona mörg útköll," segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi landhelgisgæslunnar, en þyrlan var kölluð út þrisvar sinnum í gær og fjórum sinnum á föstudag. 

Það sem af er helgi er þyrlusveit landhelgisgæslunnar búin að sinna sjö útköllum. 

„Við vonum að það verði ekki fleiri útköll þessa helgina,“ segir Ásgeir. Á myndum Landhelgisgæslunnar frá í gærkvöldi sést að hún átti í nógu að snúast.

Úr þyrlu Gæslunnar.
Úr þyrlu Gæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Í viðbragðsstöðu á Akureyri

Þyrlur landhelgisgæslunnar hafa verið gerðar út, bæði frá Akureyri og Reykjavík þessa helgina. Þó báðar áhafnir hafi sinnt þeim sjö útköllum sem borist hafa um helgina, hefur meira mætt á áhöfninni sem er fyrir norðan, þar sem hún hefur sinn fimm útköllum af þeim sjö sem borist hafa. Nokkur vegna alvarlegra slysa, segir Ásgeir. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra óskaði eftir því að hafa þyrlu gæslunnar í viðbragðsstöðu á Akureyri um helgina, vegna fjölda ferðamanna á Norðurlandi um helgina. Meðal annars vegna Fiskidagsins mikla sem fram fór á Dalvík í gær.

Þrjú útköll bárust þyrlusveit í gær 

Ökumaður bifreiðar var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahúsið á Akureyri, með þyrlu Landhelgisgæslunnar, eftir bílveltu við Kambhól á Ólafsfjarðarvegi í gær. Tilkynning barst lögreglunni á Norðurlandi eystra laust eftir miðnætti og þyrlusveitin gat brugðist hratt við, enda staðsett á Akureyri. 

Þyrlusveitin var þá ný komin úr öðru útkalli, norður af Vatnajökli, en þar varð vélhjólaslys á tíunda tímanum í gær. Viðkomandi var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri. 

Slysið átti sér stað á svipuðum slóðum og annað vélhjólaslys sem varð austur af Herðubreið sólarhring áður, það var þó öllu alvarlegra, segir Ásgeir. Viðkomandi hafði legið í hátt í tvær klukkustundir áður en vegfarandi kom að honum og gat hringt eftir aðstoð, bætir hann við.

Fyrsta útkall gærdagsins barst þyrlusveitinni sem staðsett er í Reykjavík, frá Flatey í Breiðafirði. Vegna konu sem hafði slasast eftir fall. Konan var flutt á Landspítalann til rannsókna, en meiðsli hennar voru ekki talin alvarleg. 

Annríki hjá Landhelgisgæslunni

„Það hefur mætt mikið á þyrlusveit gæsluna, sem og varðstjórum í stjórnstöð sem annast öll sam- og fjarskipti við þyrlurnar, þessa helgina,“ segir Ásgeir. 

Mikill flugtími hefur sparast með því að hafa þyrlusveit staðsetta á Akureyri, miðað við að gæslan hefði þurft að fara frá Reykjavík, segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert