ADHD-lyfjaskortur á Íslandi

ADHD-lyfið Elvanse er nú að mestu ófáanlegt hér á landi. …
ADHD-lyfið Elvanse er nú að mestu ófáanlegt hér á landi. Næstu sendingar af lyfinu eru væntanlegar í haust. Ljósmynd/Colourbox

„Það er unnið að því að fá lyfið frá öðrum mörkuðum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að svona staða kemur upp, en þegar slíkt gerist er það yfirleitt vegna þess að Lyfjastofnun hefur ekki fengið tímanlega tilkynningu um mögulegan lyfjaskort,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við mbl.is um skort á ákveðnum ADHD-lyfjum hér á landi.

„Að svo stöddu er okkur ekki enn ljóst hvort að markaðsaðilar hafi brugðist tímanlega við,“ segir hún jafnframt.

Um þessar mundir er ADHD-lyfið Elvanse adult ófáanlegt hjá heildsala hér á landi, en á vef Lyfjastofnunar má nálgast upplýsingar um áætlaðan komutíma lyfsins til landsins.

Næstu skammtar eru væntanlegir í haust

Áætlað er að 30 mg af Elvanse Adult verði aftur fáanleg um miðjan október, og 50 mg eftir miðjan september. Rúna segist ekki geta skýrt með fullri vissu hvers vegna þessi staða sé komin upp. Hún telur þó að almenn markaðslögmál geti hafa spilað inn í.

Rúna segir að Lyfjastofnun reyni eftir fremsta megni að leiðbeina …
Rúna segir að Lyfjastofnun reyni eftir fremsta megni að leiðbeina markaðsaðilum, svo að komist verði hjá óvissuástandi, sem bitni á notendum lyfja. mbl.is/Frikki

„Þessi lyf eru mikið notuð á Íslandi. Það er erfitt að spá nákvæmlega fyrir um umfang notkunarinnar, en hún hefur a.m.k. farið stigvaxandi. Notkun á Elvanse hefur t.a.m. aukist mjög mikið upp á síðkastið. Það er spurning hvort að spár um framboð og eftirspurn hafi bara einfaldlega ekki gengið eftir,“ segir Rúna.

„Markaðsleyfishafarnir virðast ekki ná að verða sér úti um lyfið frá öðrum mörkuðum, sem bendir til þess að erlendir markaðir séu líka að glíma við skort,“ bætir Rúna við.

Binda vonir við undanþágulyf

Þegar upp kemur skortur á ákveðnu lyfi sem er á markaði, getur reynst nauðsynlegt að ávísa lyfi sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi eða þá að markaðsleyfið er til staðar en lyfið er ekki markaðssett hér á landi. Þessi lyf kallast óskráð lyf eða undanþágulyf í daglegu tali.

Að sögn Rúnu er nú unnið að því að flytja inn svokölluð undanþágulyf til landsins.

„Það er verið að reyna að útvega undanþágulyf, en með tilkomu þess yrðu helstu neikvæðu áhrifin sem fylgja skorti á Elvanse sigruð. Það hafði áður náðst að útvega samheitalyf, en nú ríkir einnig skortur á þeim. Við bindum vonir við að undanþágulyfið berist hingað til lands á næstunni, en það lyf yrði líklega bara Elvanse í svissneskum pakkningum, eftir því sem ég best veit,“ segir Rúna.

Vilja afstýra óvissuástandi

Rúna leggur brýna áherslu á að markaðsaðilar tilkynni allar uppákomur tímanlega til Lyfjastofnunar, og þá sérstaklega þær sem komi til með að valda röskun á afhendingu lyfja.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.

„Við viljum eftir fremsta megni afstýra óvissuástandi. Hlutverk Lyfjastofnunar er að útvega leyfi, fylgjast með lyfjaskorti og sjá til þess að markaðurinn bregðist rétt við í svona stöðu.

Það eru heildsalar sem sjá um að panta lyfin og flytja þau til landsins. Eitt af því sem við skoðum núna er hvort að tilkynningin um lyfjaskort hafi borist of seint til okkar. Allar tilkynningar um mögulegar raskanir, sem geta leitt til lyfjaskorts, þurfa að berast til Lyfjastofnunnar eins fljótt og auðið er, svo að hægt sé að bregðast tímanlega við. Það er alveg klárt mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka