Alvarlegt að Kópavogur skapi meiri pressu á konur

Dagný segir Kópavogsbæ ekki bara refsa fólki fjárhagslega heldur ýti …
Dagný segir Kópavogsbæ ekki bara refsa fólki fjárhagslega heldur ýti einnig undir foreldrasamviskubit.

Lögfræðingur BSRB segir alvarlegt að Kópavogsbær skapi frekari pressu á konur til að vera í hlutastörfum og velti þannig mönnunarvanda bæjarins yfir á þær.

Telur hún að umdeildar breytingar á gjaldskrá leikskóla Kópavogsbæjar, sem samþykktar voru í júlí, og fela í sér umtalsverða hækkun fyrir börn sem þurfa vistun umfram 6 tíma á dag, muni fyrst og fremst bitna á konum í lágtekjustörfum.

„Foreldrar í Kópavogi hafa eðlilega lýst áhyggjum yfir breytingunum en veruleiki foreldra er afar misjafn og ljóst að einstæðir foreldrar með lítið bakland og lágtekjufólk með fasta 8 tíma viðveru neyðist til að greiða tugþúsundum hærri leikskólagjöld með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu í mikilli dýrtíð,“ segir Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, í grein sem birtist á vef bandalagsins í morgun.

Raunveruleiki alltof margra kvenna

Dagný bendir á að sumir foreldar hafi vissulega sveigjanleika til að vinna heima og treysti sér til þess með leikskólabörn á heimilinu. Það eigi þó aðallega við um fólk sem vinni störf þar sem hærri laun eru greidd, líkt og sérfræðistörf.

Fólk á lægri launum hafi ekki sama sveigjanleika nema það minnki við sig vinnu til að mæta aukinni umönnunarþörf á heimilinu.

„Þetta er raunveruleiki allt of margra kvenna nú þegar sem leiðir af sér lægri laun og lægri ævitekjur – og er stór ástæða kynbundins launamunar í íslensku samfélagi,“ segir Dagný.

„Kópavogsbær er ekki einungis að refsa fólki fjárhagslega heldur ýtir bærinn undir foreldrasamviskubit með því að vísa til þess að börn hafi ekki gott af því að vera 8 tíma eða meira á dag á leikskóla,“ segir hún jafnframt.

Ekki litið til áhrifa á breytinga á jafnrétti

Þá séu það ekki bara foreldrar sem hafi gagnrýnt breytingarnar heldur hafi Kvenréttindafélag Íslands og Jafnréttisstofa einnig bent á möguleg neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna og þá sérstaklega erlendra mæðra í viðkvæmri félags- og fjárhagslegri stöðu.

Dagný segir fulla ástæðu til að taka undir áhyggjurnar, enda sé ekkert sem bendi til þess að bærinn hafi litið til áhrifa breytinganna á jafnrétti.

Fram hefur komið að Kópavogsbær telji breytingarnar geta leyst mönnunarvanda, minnkað álag á starfsfólk og dregið úr veikindatíðni. Þá sé verið að skapa hvata fyrir fólk til að stytta dvalartíma barna sinna, enda verði leikskólinn gjaldfrjáls fyrir þau börn sem verða með sex tíma eða skemmri vistun.

Fulltrúar bæjarins hafa látið hafa efir sér að vinnumarkaðurinn sé breyttur, vinnudagurinn sé almennt styttri og meiri sveigjanleiki. Fólk geti því sótt börnin fyrr.

Ekki sanngjörn krafa

Dagný bendir á að BSRB hafi barist fyrir styttingu vinnuvikunnar til að auka möguleika fjölskyldufólks til að eyða meiri tíma saman. Stór skrefi hafi verið tekin árið 2020 í þeim efnum. Markmiðið sé að stytta vinnutíma enn frekar og það muni líklega leiða af sér styttri dvalartíma barna á leikskóla. Ekki sé hins vegar hægt að byrja á öfugum enda.

„Á meðan stærstur hluti vinnandi fólks vinnur í kringum 8 tíma vinnudag (40 stunda vinnuvika) er ekki sanngjarnt að sveitarfélög geri þá kröfu að börn verði styttra á leikskóla.“

Mönnunarvandi, álag og há veikindatíðni sé landlægt vandamál starfsfólks á leikskólum og í annarri almannaþjónustu, sérstaklega hjá hefðbundnum kvennastéttum.

„Kvennastörf hafa verið og eru enn vanmetin og ljóst er að leiðrétta þarf það sögulega óréttlæti. Það er spurning um forgangsröðun hjá sveitarfélögum að leggja leikskólunum til nægilegt fjármagn til þess að greiða almennileg laun, tryggja að vinnuálag sé hæfilegt og vinnuaðstæður góðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka