„Alvöru rigning“ á föstudaginn

Úrkomuspáin kl. 15 á föstudaginn.
Úrkomuspáin kl. 15 á föstudaginn. Kort/Veðurstofa Íslands

Blíðviðrið sem hefur verið á mest öll landinu í dag mun ekki vara út vikuna en á fimmtudaginn og föstudaginn er von á þó nokkurri úrkomu á Suðurlandi og Vesturlandi. Á föstudaginn verður úrkoma yfir nær öllu landinu.

Þetta segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Það er frekar rólegt og úrkomulítið í dag og á morgun en á föstudaginn kemur alvöru rigning um mest allt land, mest verður um suður- og vesturströndina. Það gæti verið svona tíu til tuttugu millímetrar. Á höfuðborgarsvæðinu verið svolítið blautt,“ segir de Vries.

Gæti komið viðvörun

Hann bætir við að úrkominni fylgi smá vindur en tekur fram að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Á laugardaginn er búist við smá úrkomu víðs vegar en töluverðum vind á Suðurlandi og Austurlandi sem verður á bilinu þrettán til átján metrar á sekúndu. 

Búist er við rigningu á föstudaginn.
Búist er við rigningu á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það gæti komið viðvörun á laugardaginn fyrir suðurland vegna vinds. Það verður svolítil rigning á Suðausturlandi en það verður ekki lengi.“

De Vries bendir á að vegna vinds úr austanátt verður töluverð molla á Vesturlandi á laugardaginn og hlýtt í veðri. 

„Ef þetta verður lítur veðurfar á Vesturlandinu mjög vel út, kannski sextán til átján gráður,“ segir hann en ítrekar að enn séu nokkrir dagar til stefnu og spáin gæti því breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert