Fundu brennisteinslykt við vesturenda vatnsins

Gufustrókurinn var farinn að leysast upp þegar Helgi tók myndina.
Gufustrókurinn var farinn að leysast upp þegar Helgi tók myndina. Ljósmynd/Helgi Elí Hálfdánarson

Helgi Elí Hálfdánarson flugmaður hjá Mýflugi varð var við brennisteinsþef og gufustrók er hann flaug yfir Öskjuvatn um fjögurleytið í dag með ferðamenn í útsýnisflugi. Hann flýgur reglulega um þessar slóðir en hefur ekki áður fundið þessa lykt við Öskju á flugi. 

Engir gasmælar eru við eldstöðina en hópur jarðvísindamanna heldur í könnunarleiðangur á morgun til að mæla gas á svæðinu og vatnshita í Víti.

Landris hófst í Öskju fyr­ir um tveim­ur árum og lýstu almannavarnir yfir óvissu­stigi á svæðinu í sept­em­ber 2021 og er það enn í gildi. 

Rúv greindi fyrst frá. 

Flaug tvisvar í dag

Vatnshiti í Víti hefur mælst 27 gráður, sem er 9 gráðum hærra en hann hefur mælst áður í sumar. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði við mbl.is fyrr í dag að hitabreytingar gætu verið til marks um að kvika sé á ansi litlu dýpi.

Helgi Elí, hefur reglulega flogið yfir Öskjuvatn í sumar. Í dag flaug hann tvisvar yfir eldstöðina og í seinna skiptið þegar hann flaug yfir vatnið við Víti varð hann var við lítinn gufustrók við vesturenda vatnsins, rétt norðan við Mývetningahraun. Þegar vélinni var snúið til austurs við vesturenda vatnsins fannst greinileg brennisteinslykt en þegar flogið var aftur yfir vatnið og myndirnar voru teknar var strókurinn að leysast upp.

Helgi Elí, kveðst einnig hafa einnig séð að kvöldi þann 11. ágúst, skammlífan gufustrók við jarðhitasvæði við suðurenda vatnsins. Sá strókur leystist upp og var horfinn á meðan vélinni var snúið við til að kanna þetta betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert