„Gríðarlegt öryggi fólgið í því að hafa þyrluna“

Þyrlu­sveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar ann­aðist út­köll frá Ak­ur­eyri og Reykja­vík þessa helg­ina …
Þyrlu­sveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar ann­aðist út­köll frá Ak­ur­eyri og Reykja­vík þessa helg­ina í von um styttri viðbragðstíma. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Það er gríðarlegt öryggi fólgið í því að hafa þyrluna hjá okkur. Helst vildum við hafa hana hér allt árið,“ segir Aðal­steinn Júlí­us­son, aðal­varðstjóri hjá lög­regl­unni á Ak­ur­eyri. 

Þyrlu­sveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar ann­aðist út­köll frá Ak­ur­eyri og Reykja­vík þessa helg­ina í von um styttri viðbragðstíma. Var það gert að beiðni lög­regl­unn­ar á Norður­landi, enda búist við mikl­um fjölda ferðamanna á Norður­land um helg­ina, m.a. vegna Fiski­dags­ins mikla sem fram fór á Dalvík á laugardag. 

„Miklu fljótari að fara héðan“

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar barst sjö útköll um helgina, þar af brást áhöfnin á Akureyri við fimm þeirra. 

„Þetta er einfaldlega þannig staðsetning að þeir eru miklu fljótari að fara héðan, enda Akureyri miklu meira miðsvæðis á landinu heldur en Reykjavík,“ segir Aðalsteinn. 

Hann segir viðbragðsaðila á Norðurlandi oft hafa velt þessu fyrir sér, „hvers vegna það sé ekki fyrir löngu búið að kanna það að hafa þyrlu staðsetta á Akureyri“. 

Snýst fyrst og fremst um fjárveitingar

Er það eitthvað sem þið munuð beita ykkur fyrir?

„Menn eru linnulaust búnir að nefna það í gegnum árin að hafa þyrluna staðsetta fyrir norðan. Ég held að þetta kosti bara fullt af peningum, það er það sem málið snýst um,“ segir Aðalsteinn sem telur málið snúast fyrst og fremst um fjárveitingar. 

Heldur þú að fjöldi útkalla tengist fjölda ferðamanna á svæðinu um helgina?

„Við getum aldrei ákveðið hvenær slysin gerast, en þetta er bara spurning um að taka þetta skref myndi ég halda,“ segir Aðalsteinn og bætir við að hugsanlega væri hægt að skilgreina álagstíma og hafa þyrlusveit staðsetta á Akureyri á þeim tímum. 

Sérsveitin á Akureyri

Þá nefnir Aðalsteinn annan vinkil sem hann segir ekki mikið talað um. Ríkislögreglustjóri starfrækir sérsveit, sem stundum þarf að flytja landshluta á milli vegna alvarlegra mála. 

„Eðlilega er hún í flestum tilfellum fljótari að bregðast við héðan vegna staðsetningar okkar á landinu,“ segir Aðalsteinn. 

Hann segir sérsveitina þó stundum flutta með sjúkraflugvélum, en ókosturinn sé sá að ekki er hægt að lenda flugvélum alls staðar á landinu. 

„Það myndi hjálpa viðbragðsaðilum hér mjög mikið og styðja við sjúkralið og lögreglu,“ segir Aðalsteinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert