Hefði viljað fá undanþágu

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði viljað fá undanþágu frá …
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði viljað fá undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins um að fella vöruflutninga á sjó undir svokallað ETS kerfi losunarheimilda ESB. Samsett mynd

„Grunnatriðið er það að ég hefði viljað vera betur upplýstur um ferlið meðan á því stóð og það er eðlilegt að þingið hefði komið að því. Ég hefði gjarnan viljað fá undanþágu,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var spurður álits á þeim fyrirætlunum stjórnvalda að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um að fella vöruflutninga á sjó undir svokallað ETS kerfi losunarheimilda ESB.

Fram hefur komið að ekki standi til að sækjast eftir ívilnun eða undanþágu vegna þessa fyrir Ísland, en talið er að skipafélögin muni þurfa að kaupa loftslagsheimildir fyrir sex milljarða króna á næsta ári vegna þessa. Óttast er að það muni leiða til hækkunar vöruverðs.

„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum almennt að sækja um þær undanþágur sem mögulegt er að fá varðandi EES samninginn. Einnig á þingið að hafa eðlilega og upplýsta aðkomu að þeim málum sem varða samninginn. Þetta er þannig mál. Einnig hvort menn eigi að nýta sér mögulegar undanþágur sem málinu tengjast eða ekki. Við höfum mjög gott dæmi sem mér fannst til mikillar fyrirmyndar sem er það hvernig utanríkisráðherra og starfsmenn ráðuneytisins tókust á við flugmálið gagnvart ETS kerfinu. Í því máli var utanríkisráðuneytið á tánum og hélt nefndum þingsins upplýstum um þróun mála. Í því ferli voru utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd með allan tímann og upplýst um gang málsins. Þar náðist farsæl niðurstaða og það tókst að verja hagsmuni og samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar sem tengimiðstöðvar á milli Evrópu og Norður Ameríku,“ segir Njáll Trausti.

„En í þessu máli virðist það ekki hafa verið gert með sama hætti,“ segir hann og bendir á að málið sé stórt, þótt vissulega hafi hagsmunirnir í tilviku flugsins verið stærri.

„Það er mjög vel skiljanlegt að það skapist óánægja með þetta mál. Við erum mjög háð skipaflutningum og það er mikilvægt að samkeppnishæfni landsins í tengslum við vöruflutninga til og frá landinu sé varin með öllum tiltækum ráðum, enda hefur þetta áhrif á vöruverð og almenn lífsskilyrði,“ segir Njáll Trausti og bætir því við að þegar málið kemur til kasta þingsins muni enn frekari upplýsinga verða aflað um möguleg áhrif af innleiðingu tilskipunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert