„Þetta verkefni er svipað og það sem við gerðum á Hellisheiði, þá sóttum við um Evrópustyrk með Climeworks og nýttum okkur það að við áttum alla innviði, vorum búin að byggja föngunarstöð og áttum borholurnar. Það eina sem þurfti að gera var að Climeworks kæmi með sína loftsugu, sem var pínulítil, og fengi að stinga sér inn í okkar kerfi. Þetta hjálpaði þeim að ná forystu á heimsmælikvarða. Vegna þessa lærðu þeir ótrúlega hratt og gátu byggt upp næsta kerfi sem heitir Orca og þar sem það gekk svo vel erum við að byggja tífalt stærra verkefni sem heitir Mammoth.“
Þetta segir dr. Bergur Sigfússon, yfirmaður kolefnisföngunar og niðurdælingar hjá Carbfix, í samtali við Morgunblaðið um nýtt verkefni fyrirtækisins, sem færir nú út kvíarnar í vesturátt. Carbfix, ásamt RMI og Pacific Northwest National Laboratory (PNNL), mun leiða samstarfsverkefni þrettán aðila í norðvesturhluta Bandaríkjanna en verkefnið hlaut á dögunum styrk frá bandaríska orkumálaráðuneytinu upp á þrjár milljónir bandaríkjadala, sem nemur um 396 milljónum íslenskra króna.
„Við notum þennan styrk til að skapa þetta verkefni en jafnframt er þetta okkar skref til að stíga inn á Bandaríkjamarkað,“ segir Bergur, sem sér ýmis tækifæri blasa við fyrir fyrirtækið í náinni framtíð. Carbfix er í raun leiðandi á heimsmælikvarða í umræddri aðferð við að losa koldíoxíð úr andrúmsloftinu og binda það í basaltjarðlögum og segir Bergur ekkert fyrirtæki hafa gert jafnmikið í þeim efnum. „Við náum upp í hundrað þúsund tonn á næstu misserum á Hellisheiðinni og erum að byrja að dæla niður á Nesjavöllum og í Helguvík við sjóinn. Við erum búin að gera langmest.“
Svissneska fyrirtækið Climeworks hefur verið í nánu samstarfi við Carbfix hér á landi en Climeworks tekur þátt í stóru verkefni í Bandaríkjunum á komandi misserum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu á föstudaginn að þau hygðust fjárfesta allt að 1,2 milljarða bandaríkjadala í verkefni í suðurhluta Bandaríkjanna með sömu tæknilausn og var fyrst tekin í gagnið á Íslandi við Hellisheiðarvirkjun haustið 2021, þar sem Climeworks og Carbfix settu á laggirnar Orcu-lofthreinsistöðina.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.