„Ég held að það sé hollt fyrir fólk að vita hvaðan þetta kemur og að þetta er í raun og veru ekki nýtt vandamál,“ segir Atli Þór Kristinsson, sagnfræðinemi við Háskóla Íslands, um fólk sem þarfnast langvarandi þjónustu og endar á hjúkrunar- og dvalarheimilum þótt það sé ekki endilega komið á efri ár.
Atli rannsakar nú sögu þess úrræðis að vista börn og ungmenni með fötlun á elliheimilum og segir hann að afrakstur rannsóknarinnar birtist í meistaraverkefni hans í sagnfræði í kringum áramótin.
Atli segir hugmyndina að verkefninu hafa kviknað þegar hann, ásamt leiðbeinanda sínum og fleiri samstarfsmönnum, gaf út sjálfsævisögu konu sem hét Bjargey Kristjánsdóttir en var kölluð Bíbí.
Hún hafi fæðst með fötlun snemma á síðustu öld og verið send á ellideild Héraðshælisins á Blönduósi í kjölfar fráfalls móður hennar. Hún hafi þó ekki verið komin á eftirlaunaaldur á þeim tíma, aðeins verið þrítug að aldri. Að sögn Atla lýsir Bíbí dvöl sinni sem ung manneskja á elliheimili á mjög áhugaverðan hátt, en hún átti eftir að dvelja á hælinu í nærri tvo áratugi.
„Við þessa vinnu og útgáfu þessarar bókar vaknaði í sjálfu sér spurningin hvort þetta væri einsdæmi eða hvort það hefðu verið fleiri dæmi um þetta,“ segir hann.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.