„Ísland er ekki með opin landamæri“

Dómsmálaráðuneytið segir skýrar reglur vera um dvöl fólks hér á …
Dómsmálaráðuneytið segir skýrar reglur vera um dvöl fólks hér á landi. mbl.is/Eggert

Dómsmálaráðuneytið áréttir í dag að Ísland sé ekki með opin landamæri. Þetta kemur fram í yfirlýsingu þar sem farið er yfir nokkur mál er snerta framfylgd nýrrar löggjafar í útlendingamálum.

Um dvöl á Íslandi gildi strangar reglur fyrir fólk utan Schengen og EES-svæðanna.

Undantekningar á því séu gerðar ef fólk er sannarlega í hættu og geti það þá fengið alþjóðlega vernd. Sé slíkri vernd endanlega hafnað beri fólki að yfirgefa landið og geri það svo ekki, er það ólöglega í landinu.

 „Ef fólk fær hér sjálfkrafa dvöl með því einu að neita að hlíta lögmætum niðurstöðum stjórnvalda og neita að fara að fyrirmælum lögreglu eru íslensk lög um landamæri og skilyrði fyrir komu fólks hingað til lands að engu orðin,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

Munur á umborinni og ólögmætri dvöl

Dómsmálráðuneytið ítrekar að fólk sem hefur hlotið slíka synjun en neitar að yfirgefa landið sé hér á landi í ólögmætri dvöl. Segir ráðuneytið hafa borið á því að ruglað sé með hugtök og sagt að það fólk sé í „umborinni dvöl“. Það hugtak sé notað aðeins fyrir þá sem séu hér á landi og mál þeirra enn til meðferðar.

Eins vill ráðuneytið taka skýrt fram að enginn sé neyddur til að búa á götunni, og segir:

„Hermt hefur verið í fjölmiðlum að hér gætu orðið hópar heimilislausra vegna nýrra útlendingalaga. Þeim sem sýna vilja til að fara eftir lögum og starfa með yfirvöldum að sjálfviljugri heimför er séð fyrir húsnæði, framfærslu og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert